Þetta eru stór sameiginleg verkefni skógræktarfélaganna í landinu. Hér er reynt að tengja aðkomu Skógræktarfélags Garðabæjar að þeim til fróðleiks. En nánar á www.skog.is Verkefni.
Merki Skógræktarfélags Garðabæjar var teiknað árið 1999 og er afrakstur samkeppni sem efnt var til á meðal nemenda í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands skólaárið 1998-1999. Tilefnið var 10 ára afmæli félagsins haustið 1998. Sextán nemendur unnu að tillögum undir handleiðslu Gísla B. Björnssonar sem er einn reyndasti hönnuður landsins á þessu sviði og kennari í merkjahönnun um langt árabil. Tillaga Björgvins Sigurðssonar sem hlaut fyrstu verðlaun var talin fanga einkar vel einkunnarorð félagsins „Félag fyrir alla fjölskylduna“. Björgvin vann síðan að endanlegri útfærslu og litavali fyrir bréfsefni, fána og til að merkja skógræktarskiltin sem nú prýða skógræktarsvæði félagsins í landi Garðabæjar.
Hér er félagið kynnt með núverandi stjórn, lögum félagsins, merki og ágripi af tuttugu ára sögu þess.
Innra starf skógræktarfélagsins samanstendur af aðalfundi, fræðslufundum, haustferðum og vinnu- og samverukvöldum félagsmanna.
Boð eru send félagsmönnum um tölvupóst, en nettengdir félagsmenn eru í meirihluta. Til þeirra sem ekki eru nettengdir eru tilkynningarnar bornar út. Tilkynningar munu birtast á vefsíðunni www.skoggb.is
Gróðursetningar á svæðin hafa gegnum árin verið framkvæmdar af félagsmönnum, af reitahöfum á svæðunum sem eru skólarnir í bænum, félagsamtök og fjölskyldur. Einnig hafa hópar ungs fólks í Garðabæ tekið þátt í gróðursetningum á svæðin við sumarvinnu, svokallaðir skógræktarhópar.
Frá stofnun félagsins hafa vinnu- og samverukvöld verið starfrækt þ.e.a.s. yfir tvo áratugi. Þetta er angi af sjálfboðaliðastarfi skógræktarfélagsins. Safnast er saman í aðstöðu félagsins nálægt gatnamótum Vífilsstaðavegar og Elliðavatnsvegar, kl. 20 á þriðjudagskvöldum í maí og júní. Þaðan er farið út á skógræktarsvæðin til gróðursetninga, hlúð að plöntum, eða skoðuð svæðin. Alltaf er sest niður í lokin og spjallað yfir kaffisopa og skráð í dagbókina. Þessar kvöldstundir taka um tvær klst. Félagsmenn geta gengið að þessari starfssemi vísri yfir þessa tvo vormánuði.
Þegar farið er upp í Brynjudal, er lagt af stað úr aðstöðu félagsins kl. 18:00.
Haustferðir Skógræktarfélags Garðabæjar hafa sér ekki fyrirmynd frá öðrum systurfélögum. Þetta eru dagsferðir fyrsta eða annan laugardag í september sem hafa mælst mjög vel fyrir og félagsmenn vonast eftir.
Fyrsta ferðin var farin haustið 1998 sem tilbreytni í félagsstarfi á 10 ára afmæli félagsins, skemmst er frá því að segja að haustferðirnar hafa verið fastur liður síðan.
Dagskráin er fjölbreytt, heimsótt skógræktarfélög skoðuð ræktun þeirra og fræðst um þau, vinsælt er að heimsækja gróðrarstöðvar – fræðast um þær og gera smá innkaup.
Við erum fundvís á ræktun fjölskyldna og einstaklinga og þar leynist fróðleikur sem ræktunarfólk þyrstir í. Þjóðskógarnir hafa verið heimsóttir og starfstöðvar þeirra, einnig er fróðlegt að skoða ræktun hjá skógarbændum.
Skógræktarfélagar koma alltaf sælir og ánægðir heim í Garðabæinn að kvöldi eftir vel heppnaða ferð í góðum félagsskap.
Haustfundir eru jafnframt fræðslufundir. Þeir eru haldnir í október eða nóvember. Undanfarin ár hefur verið boðið uppá ferðasögur með myndum af kynnisferðum, sem Skógræktarfélag Íslands skipuleggur ásamt samstarfsaðilum um kynnisferðir til annarra landa. Oftast hefur hópur skógræktarfélaga úr Garðabæ sótt þessar ferðir og haldið myndasýningu á sínum myndum.
Haustfundir gefa líka tilefni til að hittast og fjalla um önnur mál sem efst eru á baugi hverju sinni.
Árlegir aðalfundir félagsins eru haldnir í mars. Boðið er uppá erindi að lokinni dagskrá aðalfundar og kaffihléi. Erindin eru fjölbreytt svo sem um skógrækt, landgræðslu, fugla og önnur áhugaverð náttúrutengd málefni félagsmanna. Einnig hefur verið boðið upp á ferðasögur í máli og myndum sem er ætíð vinsælt efni.
Um 16 ha að stærð, er í landi Setbergsjarðarinnar. Skógræktarfélagið fékk norðurenda holtsins til skógræktar árið 1993. Þar er nær full gróðursett. Áburðargjöf og annarri umhirðu er þar sinnt. Þar rís fallegur ungskógur sem nýtist fyrirhugaðir byggð á Urriðaholti og Setbergi. Ekki hafa verið lagðir stígar þar ennþá, en gott aðgengi er frá Elliðavatnsvegi. Landgræðsluskógaskilti merkir svæðið.
Nýlegar athugasemdir