Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

mars 2018

Skógarskáli Smalaholti

Með Fréttir

Skógarskáli í Smalaholti

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar hefur látið vinna tillögu að skógarskála fyrir félagið sem yrði staðsettur við aðkomuna að Smalaholti og var hún unnin af Sigurði Einarssyni hjá Batteríi arkitektum. Í skálanum er gert ráð fyrir aðstöðu með geymslurými fyrir verkfæri, salerni og á baklóð yrði afgirt svæði fyrir plöntugeymslu. Hugmynd að skógarskála þróaðist eftir að Garðabær eignaðist Vífilsstaðaland á árinu 2017, því ætla má að núverandi aðstaða félagsins þurfi að víkja fyrir nýrri íbúðabyggð. 

 

Formaður Skógræktarfélagsins kynnti hugmyndina að skógarskála í Smalaholti fyrir Gunnari Einarssyni bæjarstjóra þann 7. nóv. 2017. Þá var í gangi hugmyndasamkeppni arkitekta á vegum Garðabæjar að rammaskipulagi Vífilsstaðalands með framtíðarsýn í huga. Úrslit samkeppninnar var kynnt 21. desember þar sem í fyrsta sæti var tillaga arkitektastofunnar Batterísins, landslagsarkitektastofunnar Landslags og verkfræðistofunnar Eflu. Í framhaldi fer fram vinnsla deiliskipulags. Tillagan að aðstöðu félagsins við aðkomuna að Smalaholti með skógarskála var send til bæjaryfirvalda og skipulagsyfirvalda þann 20. febrúar síðastliðinn.

 

Við undirbúning arkitektasamkeppninnar gafst hagsmunaaðilum tækifæri til að senda dómnefnd tillögur. Einnig var haldinn íbúafundur á vegum Garðabæjar þar sem óskað var eftir tillögum að nýtingu Vífilsstaðalands. Skógræktarfélagið er einn hagsmunaaðila Vífilsstaðalands vegna skógræktar- og útivistarsvæðis í Smalaholti, auk Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) vegna golfvallarins í Vetrarmýri og Hestamannafélagsins Spretts vegna reiðleiða.

 

Það hefur komið fram á íbúafundi og í blaðagreinum að GKG hyggst krefjast stækkunar golfvallarins inn fyrir mörk skógræktarsvæðisins í Smalaholti á móti skerðingu á golfvellinum vestast í Vetrarmýri. Það á eftir að koma í ljós við frekari skipulagsvinnu af svæðinu hvort, og þá hversu mikil sú skerðing verður.

Mikilvægt er að svæðið við aðkomuna að Smalaholti við Elliðavatnsveg verði ekki skert en þar hefur félagið áhuga á að koma fyrir skógarskálanum og þar er andlitið að skógræktar- og útivistarsvæðinu í Smalaholti sem er hjarta félagsins enda fyrsta svæðið sem fengið var til skógræktar en Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað í framhaldinu 24. nóvember 1988 og er því þrítugt á þessu ári.


Svona gæti skáli Skógræktarfélagsins í Smalaholti litið út.


Skálinn yrði staðsettur við bílastæðið við Elliðavatnsveg.