Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2024

Haustferð um Biskupstungur

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var farin laugardaginn 14. september.

Að þessu sinni lá leiðin um Biskupstungur.

Lagt af stað frá Garðabæ kl. 9 um morguninn.

Fyrsti viðkomustaður var Haukadalsskógur þar sem Trausti Jóhannsson skógarvörður tók á móti félagsmenn og fræddi okkur um staðinn. Gengið var um skóginn á nýlögðum kurlstígum sem eru til mikillar fyrimyndar og gera skóginn mjög aðgengilegan.

 

Við eldstæði í Haukadalsskógi.

Frá Haukadal var ekið að Gamlhólum í Miðhúsaskógi þar sem hjónin Haraldur Tómasson  og
Inga Guðmundsdóttir tóku á móti okkur og sýndu okkur ræktunarsvæði sitt. Ræktunin er um 30 ára gömul og er geysilega tegundarík og var gaman að sjá hve mismunandi græni litur trjánna getur verið. Þarna mátti sjá margar mjög forvitnilegar trjátegundir sem sjást ekki víða.

Hópurinn í landi Haralds Tómassonar og Ingu Guðmundsdóttur.

 

Frá Gamlhólum var ekið að gróðrarstöðinni Kvistabæ í Reykholti sem sérhæfir sig í ræktun skógarplantna og ræktunin þar skoðuð. Gróðrarstöðin ræktar eingöngu til stórnotenda en er ekki með smásölu. Mikil sjálfvirkni er í sáningu þannig að mannshöndin kemur lítið nærri, aðallega starfar mannaflinn við koma bökkum að vélunum og taka þá frá eftir að sáð hefur verið í þá. Athyglisvert er að plönturnar eru geymdar í frystigámum að vetri yil þar sem haldið er 4 stiga frosti. Þannig verða lítil afföll af plöntunum þar sem engir umhleypingar eru að vetrarlagi.

 

Í ræktunargróðurhúsi í Kvistabæ.

Haldið var heim á leið eftir velheppnaðan dag í frábæru veðri og komið til Garðabæjar um kl. 19.