Skip to main content

Lundamói

Með júní 21, 2015janúar 21st, 2019Fréttir

Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur

Komið verður saman í Lundamóa í tilefni þess að 35 ári eru liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær standa saman að gróðursetningu að hætti Vigdísar sem er að gróðursetja þrjár trjáplöntur, eina fyrir stúlkur, eina fyrir pilta og þá þriðju fyrir ófædd börn.

Athöfnin verður laugardaginn 27. júní um allt land sem samstarfsverkefni skógræktarfélaga og sveitarfélaga og hefst hjá okkur í Lundamóa kl. 13:00.

Lundamói er opið svæði austan við Lundahverfi sem hallar að Reykjanesbraut, sem nú er umgirt grænni jarðvegsmön. Margar leiðir liggja að Lundamóa, þar um liggur ein aðalsamgönguleið göngu- og hjólastíga gegnum bæinn, frá Hafnarfirði norður í Kópavog. Svæðið er núna skógi vaxið og tilvalinn útivistarstaður í bæjarlandinu. Umhverfishópar í sumarstörfum hjá bænum hafa verið að leggja stíga út kurli um svæðið til að lokka fólk af aðalstígnum inn á svæðið sem opnast með útsýni til Vífilsstaða.

Lundamói á töluverða sögu, fyrstu gróðursetningar í móann voru á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar þegar Ólafur Vilhjálmsson á Bólstað, formaður félagsins, gróðursetti í móann á tímabilinu 1984 til 1988. Trjátegundir sem gróðursettar voru þá voru helst birki, stafafurur, sitkagreni og viðjur, þessi tré mynda skógarlund í miðjum Lundamóa. Haustið 1988 var Skógræktarfélag Garðabæjar stofnað eftir að Ólafur og Erla Bil garðyrkjustjóri fengu Smalaholt í landi Vífilsstaða til skógræktar.

Lundamóinn var í sviðsljósinu 26.07.1992 er fjölmennt norrænt vinabæjamót var haldið í Garðabæ. Þá gróðursettu gestir mótsins með frú Vigdísi forseta í fararbroddi plöntur í Vinabæjarlundinn. Áhugi gestanna beindist auðvitað að frú Vigdísi gróðursetja trjáplöntu í reitinn með myndavélar á lofti. Aftur heimsóttu norrænir gesti Vinabæjarlundinn sumarið 2012.

Skjólbeltið sem skermar af móann frá endilangri byggð Lundahverfis var gróðursett í þeim tilgangi að hefta snjó að lóðum og húsum. Því það hafði komið fyrir á snjóþungum vetrum að þakkantar húsa við Efstalund og Hörpulund sliguðust undan snjóþyngslum. Skjólbeltið mætti fara að grisja og opna því það hefur gengt sínu hlutverki.

Rauðgrenitrjám var komið fyrir innan við skjólbeltið eftir að garðyrkjustjóri hafði komið þeim til af fræi úr grenikönglum sem héngu á jólatrénu frá vinabænum Asker í Noregi, fyrir um tveim áratugum síðan.

Lundamói varð fyrir valinu í júní 2001 þegar Skógræktarfélagið gaf Garðabæ 25 birkitré af emblu kvæmi í tilefni 25 ára afmælis kaupstaðaréttinda Garðabæjar. Þá tók Ásdís Halla Bragadóttir þáverandi bæjarstjóri við trjánum og gróðursetti í móann ásamt skógræktarfélögum.

Nú geta íbúar notið Lundamóa sem skjólgóðs og gróðursæls svæðis.

Fjölmennum í Lundamóa laugardaginn 27. júní 2015 kl. 13:00

Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar