Gróðursetning í tilefni þess að 35 ár eru frá kjöri Vígdísar til forseta
Skógræktarfélag Garðabæjar og umhverfisnefnd Garðabæjar stóðu að gróðursetningarathöfn í Lundamóa laugardaginn 27. júní í tilefni að 35 ár eru frá kjöri frú Vígdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands.
Þrjú birkitré voru gróðursett að hætti frú Vigdísar, fyrir stúlkur gróðursetti Arna Rún Atladóttir 8 ára, fyrir drengi gróðursetti Jökull Snær Gylfason 17 ára sem bæði eru félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar. Jóna Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar flutti ávarp og gróðursetti tréð fyrir börn framtíðarinnar. Erla Bil Bjarnardóttir sagði frá sögu Lundamóa sem hefur komið við sögu við ýmsar viðhafnir t.d. er gestir fjölmenns norræns vinabæjarmóts gróðursettu þar í vinabæjarlund ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta. Fyrstu gróðursetningar í Lundamóa voru á árunum 1984 – 1988.
Fjöldi fólks lagði leið sína í Lundamóa í tilefni dagsins og naut þar samveru, söngs og harmonikkutóna í skjóli skógarins.
Hér má sjá myndband frá gróðursetningunni sem Hlynur Gauti Sigurðsson, verktaki Skógræktarfélags Garðabæjar, gerði.
Jóna Sæmundsdóttir gróðursetur fyrir börn framtíðarinnar.
Erla Bil Bjarnardóttir formaður Skógræktarfélags Garðabæjar og Jóna Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar. Jökull Snær Gylfason gróðursetur tréð fyrir drengi.
Arna Rún Atladóttir gróðursetur tréð fyrir stúlkur.