Skip to main content

Áformum í Smalaholti mótmælt harðlega

Með desember 21, 2019Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar mótmælir skipulagstillögu

þar sem 15 hektarar af útivistarskógi í Smalaholti eru teknir undir golfvöll

 

Miðvikudaginn 11. desember 2019 var haldin fjölmenn kynning í Sveinatungu í Garðabæ á rammahluta aðalskipulags Vífilsstaðalands. Um var að ræða íbúakynningu á forkynningarstigi þar sem Jóhanna Helgdóttir hjá Eflu kynnti skipulagstillögu sem byggð er á grunni vinningstillögu úr hugmyndasamkeppni um skipulag Vífilsstaðalands 2017. Samkvæmt vinningstillögunni var skógræktinni í Smalaholti að mestu hlíft fyrir ásókn golfvallarins en það sama er ekki hægt að segja um núverandi tillögu. Kynninguna má sjá í heild sinni á eftirfarandi slóð: https://www.gardabaer.is/media/skipulagsmal/2424-093-KYN-001-V01-Ibuakynning-20191211.pdf.

Formaður Skógræktarfélags Garðabæjar Kristrún Sigurðardóttir mótmælti á fundinum fyrir hönd félagsins framkominni skipulagstillögu enda verið að skipuleggja golfvöll inn í allt að 30 ára gróskumikinn útivistarskóg. Tillagan er algjör tímaskekkja þar sem skógar gegna mikilvægu hlutverki í loftlagsmálum svo ekki sé talað um 30 ára gamlan skóg sem er mun afkastameiri við að vinna koltvísýring úr andrúmsloftinu en yngri skógar. Allir þurfa að leggjast á eitt til að vinna gegn loflagsvánni og eru yfirvöld í  Garðabær ekkert undanskilin í þeim efnum.

Hér fyrir neðan er kort af núverandi golfvelli og hluta af skóginum í Smalaholti. Lega fyrirhugaðs golfvallar hefur verið merkt með gulu en fjólubláu strikin sýna helstu útivistarstíga í Smalaholti:

Yfirlýsing Skógræktarfélagsins í heild sinni er hér fyrir neðan:

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar mótmælir harðlega tillögunni sem kynnt var hér áðan er varðar stækkun golfvallarins inn í skóginn í Smalaholti.

Svo virðist sem fæstir golfarar, skógræktarmenn og jafnvel bæjaryfirvöld svo ekki sé talað um almenning átti sig á hversu stór hluti af skóginum í Smalaholti, samkvæmt skipulaginu, mun fara undir golfvöll. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að 15 ha af útivistarskógi í Smalaholti verði teknir undir golfvöll sem er um 1/3 af skóginum í Smalaholti. Til að við áttum okkur  betur á hversu stórt svæði 15 ha er þá samsvarar það Byggðum í Garðabæ þ.e. Hlíðarbyggð, Brekkubyggð, Dalsbyggð og Hæðarbyggð.

Þá hljómar undarlega í eyrum okkar skógræktarmanna ummæli í Morgunblaðinu 30. nóvember s.l. í frétt sem heitir „Spennandi svæði í Vetrarmýri“ en þar segir í lok fréttar: „breyta á legu golfvallarins í átt að skógræktinni“ Ekkert er talað um að farið verði yfir 15 ha af skógi og hann eyðilagður. Og í Garðapóstinum 5. desember segir orðrétt í frétt frá GKG sem heitir „Spennandi tímar hjá GKG“: „Í fyllingu tímans verður byggður nýr 9 holu völlur sem mun teygja sig niður að Vífilsstðavatni“ Í hvorugu tilfellinu er minnst á að golfvöllurinn fari yfir 15 hektara skóg sem er allt að 30 ára gamall. Ræktaður af íbúum Garðabæjar sem hafa lagt metnað í að bæta umhverfið öllum til heilla. Einnig segir í fréttinni: „Þegar hann verður tilbúinn mun Mýrin leggjast af sem golfvöllur“. Þarna mætti bæta við: og einnig 15 hektara skógur í Smalaholti.

Plöntun í Smalaholti hófst 1989 þar sem nemendur skólanna lögðu hönd á plóg svo og fjöldi bæjarbúa. Í dag er því allt að 30 ára gamall skógur í Smalaholti sem gegnir mikilvægu hlutverki sem útivistarskógur en stígar sem eru um einn og hálfur kílómetri á lengd liggja um svæðið sem fyrirhugað er að taka undir golfvöll auk margra áningastaða. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í Garðabæ sem veitir bæjarbúum og öðrum gestum mikla ánægju árið um kring.

í loftlagsmálum gegnir skógurinn ekki síður mikilvægu hlutverki en eins og öllum ætti að vera kunnugt er skógrækt ein af mótvægisaðgerðum í loftlagsmálum. Því stærri sem trén eru því meira gagn gera þau. Á svæðinu sem lagt er til að fari undir golfvöll er þéttur gróskumikill skógur þar sem trén eru allt að 10 m há. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og flestir keppast við að vinna gegn loflagsvánni þá leggja yfirvöld í Garðabæ til að 15 hektarar af gróskumiklum skógi verði útrýmt.

Vonandi ber bæjaryfirvöldum gæfa til að snúa frá þessari fráleitu skipulagstillögu sem kynnt var hér áðan, þar sem gróskumiklum útivistarskógi á 15 hekturum af landi, öllum landsmönnum og umhverfinu til heilla verði skipt út fyrir golfvöll.

 

Kristrún Sigurðardóttir,

formaður Skógræktarfélags Garðabæjar