Skip to main content
All Posts By

a8

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

Með Fréttir

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

 

Ágætu félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar og Lionsklúbbnum Eik.

Laugardaginn 17. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti milli kl. 13:00 og 16:00. Skógræktarfélag Garðabæjar og Lionsklúbburinn Eik  vinna saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Aðallega er um að ræða stafafuru og stöku greni og eingöngu má saga þau tré sem merkt hafa verið sérstaklega með plastborðum. Eitt verð, kr. 5000, er á öllum trjám og trén eru pökkuð í net eftir óskum. Aðeins staðgreiðsla er í boði. Ef sög er til á heimilinu er ágætt að hafa hana með.

Ráðlegt er að mæta vel klæddur en auk þess verður boðið upp á heitt kakó, kaffi og piparkökur í skóginum.

Aðkoma að skógræktarsvæðinu í Smalaholti er við bílastæðið af Elliðavatnsvegi, norðan við Vífilsstaðavatn. Flaggað verður á staðnum.

Gerum okkur glaðan dag í skóginum í Smalaholti.

Með jólakveðju,

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar og  Lionsklúbburinn Eikar

 

Haustferð 2011

Með Fréttir

Haustferð 2011

 

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var farin laugardaginn 17. september í blíðskapar veðri.

Haldið var austur í Fljótshlíð að Deild þar sem Sveinn Þorgrímsson og kona hans voru heimsótt . Þar var gengið um gróskumiklar hlíðar með ótrúlegum fjölbreytileika trjáplantna. Eftir um tveggja tíma göngu um skóginn var haldið að Heylæk I þar sem Sigurður Haraldsson ræður ríkjum. Þar var borðað hádegisnesti í fjósinu sem nú gegnir hlutverki minjasafns en Sigurður hefur sett upp ótrúlega skemmtilegt safn með fjölbreyttu úrvali af munum sem hann hefur safnað í gegnum árin. Þarna voru bílar, dráttavélar, mjaltarvél frá því um 1910 auk fjölda annarra muna. Síðan var gengið um skóginn þar sem aspir eru í skólbeltum og viðkvæmari tegundir þar fyrir innan. Vöxtur trjánna er ótrúlegur en ræktunin hófst 1992.

Að lokum var farið í sumarbústað Jóhannesar og Guðrúnar skammt frá Hvolsvelli en bústaðurinn er inni í skógræktargirðingu sem Skógræktarfélg Rangæinga á. Þar var tekið á móti ferðalöngum með glæsilegum kaffiveitinum úti á hlaði í haustblíðunni. Áður en haldið var heim á leið var gengið um ræktunarsvæði þeirra hjóna.

 

Haustferð 2011

Með Fréttir

 

Haustferð 17. september 2011

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar fyrir félagsmenn verður farin laugardaginn 17. september n.k. Að þessu sinni verður farið í Rangárvallasýslu og skoðaðir nokkrir áhugaverðir staðir. Um er að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til. Nánar auglýst síðar.

Sjá myndir og meiri upplýsingar um fyrri ferðir hér á heimasíðunni.

Vígsla á Trjásýnistíg

Með Fréttir

Trjásýnistígur í Smalaholti vígður

Nýr útivistarstígur var opnaður formlega í Smalaholti þriðjudaginn 9. ágúst s.l. hann er að hluta trjásýnistígur. Fjöldi manns mætti við opnunina í sumarblíðunni þar sem bæjarstjóri Garðabæjar Gunnar Einarsson og Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands klipptu á borða í tilefni af opnuninni. Gengið var um stíginn og að göngu lokinni þáðu gestir veitingar og nutu veðurblíðunnar undir hljóðfæraleik Emils Friðfinnssonar. Stígurinn er hluti af útivistarstígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar fékk skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af skógræktarhópum frá Garðabæ. Framkvæmdin er hluti verkefna sem unnin eru samkvæmt samstarfssamningi Skógræktarfélagsins, Garðabæjar og Skógræktarfélags Íslands.

Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er norðan Vífilsstaðavatns og er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Í Smalaholti hefur myndast skjólgóður skógur með fjölbreyttum gróðri sem auðvelt er að njóta með tilkomu göngustíga.

Opnun stíga og trjásýnistígs

Með Fréttir

Nýr trjásýnistígur í Smalaholti verður opnaður formlega þriðjudaginn 9. ágúst n.k. kl. 17:00. Stígurinn er hluti af stígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar hefur skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af atvinnuátaki og skógræktarhópum. Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Sjá nánari upplýsingar um svæðið á https://www.skoggb.is/index.php/svaedin/smalaholt

Boðið er til göngu og fagnaðar þriðjudaginn 9. ágúst kl. 17:00 og eru allir sem hafa áhuga velkomnir. Mæting á aðalplani í Smalaholti við Elliðavatnsveg norðan Vífilsstaðavatns.

Skógarganga

Með Fréttir

Skógarganga Skógræktarfélagsins

Siðastliðið þriðjudagskvöld 12. júlí stóð Skógræktarfélagið fyrir göngu með leiðsögn Arndísar Árnadóttur list- og sagnfræðings með gróður- og byggingasögulegu ívafi um Vífilsstaði og nágrenni. Inn í þetta fléttaði svo Erla Bil garðyrkjustjóri af alkunnum skörungsskap ýmsum fróðleik um gróður, fólk og kartöflurækt á Vífilsstöðum. Gengið var um trjálundina á staðnum, gróðurinn skoðaður með vísun í upphaf trjáræktar á reitnum norðan við Vífilsstaðahælið fyrir nær hundrað árum. Ennfremur var vitjað um stæði gamla bæjarins á Vífilsstöðum niður við lækinn og spáð í gildi fornminja. Síðan var gengið um stóru trjásveigana á túninu sunnan við hælið sem gróðursettir voru fyrir hartnær fimmtíu árum. Þeir veittu sannarlega skjól fyrir sunnanvindinum þetta ánægjulega kvöld í  stórum hópi gróðurvina og áhugafólks um verndun Vífilsstaða sem höfuðbóls í Garðabæ. Þrátt fyrir nýslegin túnin mátti skynja hin yfirgefnu hús eitt af öðru. Þessi stórkostlegi staður er vannýtt auðlind Garðabæjar sem ekki má gleymast frekar en handritin og annar menningararfur.

Undirritun um Atvinnuátakið 2011

Með Fréttir

Atvinnuátaksverkefni undirritað

Síðast liðinn miðvikudag undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu.  Samningurinn var undirritaður á útivistarsvæðinu Smalaholti norðan megin við Vífilsstaðavatn þar sem fjöldi ungmenna er að störfum í sumar við stígagerð, skógrækt, umhirðu o.fl.   

Samningurinn er hluti af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við Innanríkisráðuneytið (áður Samgönguráðuneytið) hóf árið 2009. Þetta atvinnátak var hugsað sem þriggja ára verkefni árin 2009-2011. Samningurinn felur í sér vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri á á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti, Sandhlíð og Vífilsstaðahlíð.

Öll ungmenni sem sóttu um starf hjá Garðabæ fá vinnu í sumar í 8 vikur, um 400 ungmenni starfa hjá bænum í sumar og um helmingur af þeim taka þátt í skógræktarátakinu.

Heimasíðan

Með Fréttir

Heimasíða Skógræktarfélags Garðabæjar var opnuð formlega á aðalfundi félagssins 15. mars 2010 og er ætlun hennar að gera félagsmönnum kleyft að fylgjast með hvað er í gangi og einnig til að halda utan um félagsstafssemi, myndir og skjöl félagssins. Magnús Guðlaugsson bjó til síðuna og setti upp á kerfi sem heitir Joomla!, Magnús er ungur Garðbæingur og félagsmaður í skógræktarfélaginu.

 

Vefstjóri er: Sigurður Hafliðason

Kerfisstjóri er: Magnús Guðlaugsson

Aðalfundur 2011

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2011

verður haldinn mánudaginn 7. mars 2011 og hefst kl. 20:00 

 

Fundarstaður:

Safnaðarheimiilið Kirkjuhvoll við Kirkjulund

 

Dagskrá:

   1. Venjuleg aðalfundarstörf

   2. Önnur mál

   3. Kaffiveitingar í boði félagsins

   4. Gestur fundarins verður Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur við

       Landbúnaðháskóla Íslands.