Skip to main content
All Posts By

a8

Náttúruverndarlög

Með Fréttir

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar kom saman 11.janúar þar sem gengið var frá:

„Umsögn félagsins vegna Frumvarps til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum, sem lagt verður fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010-2011.“

Í umsögninni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við breytingarnar á lögunum.

Vegna fréttar í Fréttablaðinu 13. janúar 2011 frá umhverfisráðuneytinu, um samráð við SÍ varðandi breytingar á lögum um náttúruvernd (http://www.visir.is/hofdu-sannarlega-samrad/article/2011274713954), sendi SÍ frá sér fréttatilkynningu í gær, þar sem segir að Skógræktarfélag Íslands kannist ekki við að samráð hafi verið haft við félagið við undirbúning frumvarps að breytingum á lögum um náttúruvernd. Fréttatilkynninguna má lesa á www.skog.is

Jólaskógur

Með Fréttir

Jólaskógur í Smalaholti

 

Laugardag 18. desember var opinn jólaskógur í Smalaholti. Skógræktarfélag Garðabæjar og Rótarýklúbburinn í Görðum unnu saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Skógrækt hófst í Smalaholti árið 1989 og komið að því að grisja skóginn. Mikil og góð þátttaka var í jólaskóginum, þar sem stórfjölskyldur komu og nutu saman útiveru og völdu sér jólatré.
Þó kalt væri, var kyrrt veður og allir vel búnir til útiveru. Svo var boðið upp á heitt kakó og piparkökur.
Skógræktarfélagið er mjög ánægt með hve þetta tókst vel og samstarfið við Rotaryklúbbinn.

  

17-12-2010_18-17-20_m    17-12-2010_19-29-01_m

Ánægðir viðskiptavinir

17-12-2010_18-36-29_m    IMG_0040_m

Trénu komið í netið                                                    Heitt kakó í kaupbæti  

Sala jólatrjáa

Með Fréttir

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2010

Næstkomandi laugardag 18. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti milli kl. 12:00 og 16:00.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Rótarýklúbburinn í Görðum vinna saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Aðallega er um að ræða stafafuru og grenitegundir.

Eitt verð á öllum trjám er kr. 5000,- og trén eru pökkuð í net eftir óskum.

Ráðlegt er að mæta vel klæddur en auk þess verður boðið upp á heitt kakó.

Aðkoma að skógræktarsvæðinu í Smalaholti er við bílastæðið af Elliðavatnsvegi, norðan við Vífilsstaðavatn. Flaggað verður á staðnum.

Gerum okkur glaðan dag fyrir jólinn og njótum skógarins.

Með jólakveðju,

Skógræktarfélag Garðabæjar, Rótarýklúbburinn Görðum

Haustfundur 2010

Með Fréttir

Eru til skógar í Færeyjum?


Myndasýning og ferðasaga úr Færeyjarferð.

Dagana 30. ágúst – 3. september s.l. stóð Skógræktarfélag Íslands fyrir kynnisferð til Færeyja. Nokkrir félagar úr Skógræktarfélagi Garðabæjar voru með í för.
Ferðasagan verður rakin í máli og myndum n.k. fimmtudagskvöld 21. október 2010 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og hefst kl. 20:00.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Haustferð 2010

Með Fréttir

Laugardaginn 11. sept. sl. var þrettánda haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar farin.  

Á fimmta tug félagsmanna tóku þátt í ferðinni og voru sex ræktunarreitir á Rangárvöllum og Flóa skoðaðir.

Fyrst voru Ingunn Óskarsdóttir og maður hennar heimsótt í gróðurreit þeirra í Flóanum. Þau hafa komið upp aldingarði í skjólleysinu á tæpum tveimur áratugum. Aðaláherslan síðustu árin hefur verið  á fjölbreyttar tegundir reynitrjáa. Þau buðu upp á að smakka af haustuppskeru garðsins. Ánægjulegt var að sjá hvað hægt er að rækta á berangri.

Auðkúla á Hellu var næsta stopp, þar tók á móti hópnum Gerður Jónasdóttir. Sýndi hún kúluhúsið sem hýsir íbúð hennar og stóran gróðurskála með fjölda framandi plöntuegunda sem voru mjög gróskumiklar. Einnig gekk hún með ferðalöngum um garðinn sem kom ótrúlega á óvart þarna við  þjóðveg 1, vegna fjölbreytts úrvals trjáa og runna. Garðurinn er sérstaklega vel hirtur með grasflötum og göngustígum. Um allan garðinn er séð fyrir áningar og hvíldarstöðum.

Næst var Sæmundur Guðmundsson heimsóttur eða Epla-Sæmundur eins og margir kalla hann, enda stendur hann vel undir því viðurnefni. Þarna var sannkallaður aldingarður með nær fullþroskuðum eplum svo að vart var hægt að trúa sínum eigin augum og það á Íslandi. Sæmundur býr yfir miklum fróðleik við ræktun fjölbreyttra yrkja af eplatrjám.

Nú var komið fram yfir hádegi, svo allir tóku vel á nestinu sínu þegar ferðalangarnir höfðu komið sér fyrir í bústað þeirra Ólafs og Guðrúnar í Vindási við Hróarslæk og í garðinum umhverfis bústaðnn. Þau hjón buðu félaginu til hádegisáningar sem þegin var með þökkum af skipuleggjendum ferðarinnar.

Gunnlaugsskógar við Gunnarsholt var næst vitjað undir leiðsögn Sigurðar Sigurkarlssonar. Hann sagði frá  tilurð og sögu skógarins. Upphaf skógarins er að Gunnlaugur Kristinsson landgræðslustjóri sáði birkifræi frá Skaftafelli þar árið 1939. Skógarreitur þessi er ekki auðfundinn, og því óvænt ánægja að fá tækifæri að ganga þarna um.

Við Gunnarsholt var einnig skoðuð Aspartilraun, þar sem mismunandi klónar stóðu hlið við hlið til samanburðar á vaxtarlagi og þroska.

Að lokum voru hjónin Sigurður og Svala heimsótt að Klauf í landi Skammbeinsstaða. Þar hafa þau stundað skógrækt í hálfan annan áratug. Gengið var um skógræktina sem er gríðar mikil og fræðst um ræktunarsöguna. Buðu þau upp á veitingar á verönd bústaðarins enda veðrið eins og best var á kosið og nutu menn góðgerðanna í blíðviðrinu og þökkuðu fyrir sig með góðum söng.

Myndir frá Haustferð 2010

{pgslideshow id=53|width=640|height=480|delay=3000|image=L}

 

 

 

Haustferð

Með Fréttir

Skógræktarfélagar!

Munið haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

laugardaginn 11. september um Árnes- og Rangárvallasýslur.

Nánar auglýst síðar.

Vífilsstaðir 100 ára

Með Fréttir

Skóg- og trjárækt í landi Vífilsstaða

 

Ungt skógræktarfélag

Þegar áhugafólk um skógrækt óskaði eftir  spildu til skógræktar í Smalaholti hjá þáverandi yfirlækni Hrafnkatli Helgasyni sumarið 1988, var þeirri bón ljúfmannlega tekið. Það greiddi götuna til stjórnar Ríkisspítalanna, sem er eigandi Vífilsstaða. Eftir að landsvæði var fengið í Garðabæ til skógræktar, var Skógræktarfélag Garðabæjar stofnað um haustið 24. nóvember. Á Smalaholti hefur vaxið upp ungskógur síðan. Félagið fékk til liðs við sig öll félagasamtök í bænum, úthlutaði hverju félagi um 1 hektara spildum til ræktunar. Grunnskólarnir fengu einnig reiti til gróðursetningar nemenda sinna og að koma Yrkjuplöntum þeirra í mold. En grunnskólar landsins hafa síðan 1990 fengið úthlutað plöntum til gróðursetningar úr afmælissjóði frú Vigdísar Finnbogadóttur. Nú er Smalaholtið skrýtt skógi fjölbreyttra tegunda. Þar hefur fuglafánan orðið fjölbreyttari með árunum. Félagið lét í tilefni tuttugu ára afmælis síns skipuleggja útivistarsvæði á Smalaholti, með stígum og áningarstöðum. Fyrsti áfangi verkefnisins hófst sumarið 2009 er félagið gerði samning um atvinnuátak við Skógræktarfélag Íslands og Garðabæ um lagningu útivistarstíga o.fl. á skógræktarsvæðunum. Áfram var haldið nú í sumar og komin er áhugaverður hringur í hlíðum Smalaholts.

Skógræktarfélag Garðabæjar fékk síðar Sandahlíðina ofan Kjóavalla úr landi Vífilsstaða. Þar hefur félagið komið upp áningarstað með leiktækjum. Góð aðkoma er á báðum skógræktarsvæðunum með bílaplönum.

 

Heiðmörk

Heiðmörk er að hluta úr landi Vífilsstaða og að 1/3 innan lögsögu Garðabæjar. Þar má helst telja Vífilsstaðahlíð og Grunnuvötn.  Árið 1957 fékk Skógræktarfélag Reykjavíkur til sín viðbótarland með samningi við Stjórnarnefnd ríkisspítalanna, var það gert með samþykki Helga Ingvarssonar, þáverandi yfirlæknis. Til viðbótar samningnum stendur „Enn fremur tekst Skógræktarfélagið á hendur að girða landspildu í framhaldi af fyrrnefndu landi frá gömlu girðingunni heim undir Setuliðsveg (Flóttamannaveg nú Elliðavatnsveg) umhverfis Vífilsstaðavatn. Þannig fékk ungt sveitarfélag góða girðingu, til nokkurra áratuga, umhverfis Vífilsstaðavatn sem hýsti vatnsból byggðarinnar. Má ætla að þessi aðgerð hafi ekki síst verndað vatnið og umhverfi þess.

Fyrsta girðingin til verndar skógargróðri í hrauninu og Vífilsstaðahlíð var reist á fyrstu árum Hælisins með fjárstyrk frá Baðhúsfélagi Reykjavíkur. Í ráðsmannstíð Björns Konráðssonar var mikið land girt til að friða kjarrið fyrir beit, en margt fé kom þá sunnan úr Hafnarfirði. Um 1930 lét Björn  ráðsmaður m.a. girða af Vífilsstaðahlíð.

Í Vífilsstaðahlíð er risinn þéttur skógur, þar sem greni er áberandi. Lagðir hafa verið útivistarstígar um hlíðina og áningastaðir með einu grillskýli.

 

Trjásveigarnir á Vífilsstöðum

Sunnan við aðalbygginguna á Vífilsstöðum eru reisulegir trjáreitir mest úr greni og öspum er mynda sveiga og oft nefndir sem slíkir. Þessa boga teiknaði Jón H. Björnsson, ungur landlagsarkitekt, þá nýútskrifaður frá Cornell-háskólann 1951. Trjásveigarnir á Vífilsstöðum þykja svipa til hugmyndafræði enska garðstílsins. Jón var mikilvirkur landslagshönnuður og garðplöntuframleiðandi á sinni starfsævi, en hann er nýlega látinn. Hann stofnaði gróðrarstöðina Alaska í Breiðholti með efnivið sem hann aflaði ásamt bróður sínum í Alaska áður en hann hélt heim frá námi. Hann hafði unnið á sumrin með námi hjá Skógstjórninni í Alaska. Líklegt er að trjágróðurinn í lundinum á Vífilsstöðum sé úr ræktun Jóns H. Björnssonar. Umsjón og ræktun lundarins var á hendi Jónasar Andréssonar garðyrkjumanns, einum af sjúklingum Hælisins, ásamt börnum starfsfólks Vífilsstaða. Lundurinn varð fyrir skaða í aprílhretinu 1963. Eitthvað var endurnýjað, en annað óx uppaf rótum kalinna trjáa aðallega aspa.

 

Lundurinn Bakki

Á austurbakka Vífilsstaðavatns er trjálundurinn Bakki. Marga fýsir að vita hvernig hann er tilkominn. Á tímum berklahælisins á Vífilsstöðum var fjöldi ungs fólks með starfsorku  bundið heima við Hælið vegna smithættu. Hörður Ólafsson vélstjóri var einn þeirra, hann fékk leyfi lækna Hælisins að girða af reit innan vatnsins vorið 1940 og gera tilraun til trjáræktar. Svæðið varð að girða fjárheldri girðingu vegna ágangs fjár á svæðinu. Að Herði dróst fleira ungt fólk sem vildi taka til hendinni, þar á meðal heitkona hans. Enginn var vegslóðinn að Bakka, þau fluttu  húsdýraáburð yfir vatnið á sleðum á ís. Hörður kom trjágróðri upp af fræi, í vermireitum á Bakka. Fyrsta sumarið reistu þau tjald, sem síðar varð bústaður sem Hörður byggði í einungum á Vífilsstöðum og flutti yfir vatnið á bátum sem hann smíðaði sjálfur. Í trjálundinum á Bakka er nú allhár skógarlundur, sem dregur til sín fugla og forvitið fólk.

 

Gamli Ungmennafélagslundurinn

Ungmennafélögin hófu starfsemi sína upp úr 1906. Á stefnuskrá þeirra var m.a.  að klæða landið skógi að nýju. Ungmennafélagsferðir voru farnar að Vífilsstöðum frá Reykjavík allt frá árinu 1911, þá var gróðursett í hlíðum og hrauni. Ungmennafélag Reykjavíkur tók þátt í skógræktardegi að Vífilsstöðum 1912 og heimildir herma að 2600 plöntur hafi verið gróðursettar á Vífilsstöðum þann skógræktardag. Líklegast hefur verið gróðursett þá í skógarlundinn norðan byggðarinnar á Vífilsstöðum við Vífilsstaðaveg, hann er kallaður ungmennafélagslundur. Einnig eru heimildir fyrir gróðursetningarferð Ungmennafélags Reykjavíkur að Vífilsstöðum í maí 1913. Það er því ljóst að allmiklar trjáræktartilraunir voru gerðar á fyrstu árum Hælisins og plönturnar skiptu þúsundum sem settar voru niður. En hér var við ramman reip að draga. Jarðvegur var grunnur og grýttur, lítið skjól, en þó var ekki gefist upp og árangur hefur verið sá að talsvert er af mismunandi trjám og runnum í lundinum sem áhugavert væri að skrásetja. Ekki ber heimildum saman um hvaðan plönturnar komu, annað hvort úr gróðrarstöðinni við Rauðavatn eða frá Hallormsstað. Skjólleysið á uppvaxtarárum og síðan aprílhretið 1963 hefur farið illa með gróðurinn.

 

Ritað í tilefni 100 ára afmælis Vífilsstaða

Erla Bil Bjarnardóttir

 

Heimildir:

Arndís S. Árnadóttir, „Trjárækt að Vífilsstöðum í 90 ár“, Skógræktarritið (1: 2002), bls. 81-87..

Erla Bil Bjarnardóttir, Vífilsstaðir í fortíð og framtíð, ritgerð frá Háskólanum á Hólum (2008).

Vífilsstaðir 100 ára

Með Fréttir

Í tilefni af hundrað ára afmæli Vífilsstaða verður haldin hátíð á Vífilsstöðum 

laugardaginn 4. september kl. 13-16. Sjá nánar á meðfylgjandi auglýsingu.

 

Vfilsstair_100_ra_Dagskr

Haustferð 2010

Með Fréttir

Haustferð laugardaginn 11. september 2010

 

Takið frá daginn fyrir hina árlega haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar sem að þessu sinni verður farin um Rangárþing með viðkomu í Flóanum. Nánari leiðarlýsing verður send út síðar.

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar