Skip to main content
All Posts By

a8

Yrkjugróðursetning í Sandahlíð

Með Fréttir

Yrkjugróðursetning í Sandahlíð

 

Nemendur Sjálandsskóla og Alþjóðaskólans gróðursettu birkiplöntur í gær í blíðskaparveðri. Plöntunum var úthlutað til grunnskólanema úr Yrkjusjóði frú Vigdísar Finnbogadóttur sem stofnaður var árið 1992.

Um 290 nemendur Sjálandsskóla og Alþjóðaskólans gróðursettu í skógræktarsvæðið Sandahlíð sem er umsjónarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar. Leiðbeinendur voru umhverfisstjóri Garðabæjar og starfsfólk garðyrkju. Að lokinni gróðursetningu léku börnin sér og grilluðu í Guðmundarlundi í Kópavogi sem er skammt frá.

 

 

 

Haustferð 2014

Með Fréttir

Haustferð 2014

 

Ágætu skógræktarfélagar

Takið frá laugardaginn 13. september n.k. en þá er boðað til árlegrar haustferðar Skógræktarfélagsins. Að þessu sinni verður farið um Árnessýslu þar sem nokkrir áhugaverðir staðir verða heimsóttir.

Skoðuð verður ræktun tveggja fjölskyldna í Grímsnesi og einnar fjölskyldu í landi Böðmóðsstaða í Bláskógabyggð. Um hádegið fáum við innsýn í dagleg störf í Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum. Þar er gert ráð fyrir að þátttakendur kaupi sér gómsæta tómatsúpu. 

Annars hefur fólk með sér nesti yfir daginn, skjólgóðan fatnað og góða skó.

Að öðru leyti er ferðin félögum í Skógræktarfélagi Garðabæjar að kostnaðarlausu.

Stjórnin

Hringsjá á Smalaholti

Með Fréttir

Hringsjá á Smalaholti


Glæsileg hringsjá var afhjúpuð efst á Smalaholti sunnudaginn 25. maí. Hringsjáin er staðsett á hornamarki sveitarfélaganna og er samstarfsverkefni umhverfisnefndar Garðabæjar og umhverfisráðs Kópavogs. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Margrét Björnsdóttir, formaður umhverfisráðs Kópavogs og Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, afhjúpuðu hringsjánna í kalsa rigningu.

 

Hugmyndina að þessu samstarfsverkefni bæjarfélaganna tveggja áttu þau Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs og Erla Bil Bjarnardóttir umhverfisstjóri Garðabæjar og höfðu þau umsjón með framkvæmdinni.


Hönnuður hringsjárinnar er Jakob Hálfdánarson tæknifræðingur ásamt samstarfsfólki. Örnefnarýnar voru Guðlaugur Rúnar Guðmundsson sagnfræðingur fh. Kópavogs og Sigurður Björnsson verkfræðingur fh. Skógræktarfélags Garðabæjar. Steinssmiðja S. Helgasonar kom hringsjánni fyrir efst á holtinu. En hringsjáin er reist á stöpli hornamarks sveitarfélaganna sem þar var fyrir.


Gunnar bæjarstjóri gat þess að vonandi bæru bæjarfélögin gæfu til að sjá til þess að á Smalaholti verði áfram útivistarsvæði í framtíðinni. Skógræktarfélög Garðabæjar og Kópavogs hafa ræktað útivistarskóg utan í holtinu frá 1990 með landgræðsluskógum. Þar er að vaxa upp myndarlegur  skógur sem er opinn almenningi til útivistar.


Hringsjáin er þegar komin á útivistarkort Skógræktarfélagsins af Smalaholti.


Margrét Björnsdóttir, formaður umhverfisráðs Kópavlgs, Júlía Ingvarsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, afjúpa hringsjána á Smalaholti.


Vinnukvöld í maí og júní 2014

Með Fréttir

Vinnukvöld hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar í maí og júní 2014

13. maí – þriðjudagur

Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

20. maí – þriðjudagur

27. maí – þriðjudagur

3. júní – þriðjudagur

Brynjudalur – mæting í aðstöðunni kl. 18:00 eða í Brynjudal kl. 19:00

10. júní

Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

Fræðslufundur

Með Fréttir

Fagleg umhirða trjá- og runnagróðurs – Fræðslufundur  

Fjallað um viðhald og umhirðu trjá- og runnagróðurs. Á fræðslufundinum verða leiðbeiningar og áherslur umhverfisnefndar um trjágróður í Garðabæ kynntar. Markmiðið er að gera bæinn meira aðlaðandi, m.a.  með fallegum og heilbrigðum trjágróðri.

Umræður og kaffiveitingar.

 

Fræðslufundurinn verður mánudaginn 31. mars í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og hefst kl. 20:00

Leiðbeinendur eru Baldur Gunnlaugsson garðyrkjutæknir og Magnús Bjarklind garðyrkjutæknir.

Aðalfundur

Með Fréttir

Aðalfundur

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2014 verður haldinn fimmtudaginn 20. mars 2014 í Safnaðarheimilinu við Kirkjulund og hefst kl. 20:00. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum mun gestur fundarins, Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, Skógrækt ríkisins, flytja fræðsluerindi um eðaltré í skjóli skóga. Kaffiveitingar í boði félagsins.

 

Aðalfundarboð verður sent út þegar nær dregur.

 

Allir velkomnir.

 

Stjórnin

 

 

 

Jólaskógur 2013

Með Fréttir

Jólaskógur 2013

 

Skógræktarfélag Garðabæjar efndi til opins jólaskógar í Smalaholti laugardaginn 14. desember. Mikil stemning og gleði barna var í skóginum þar sem kyngdi niður jólasnjó. Krakkarnir lögðu mikið á sig við að saga tréð sem fjölskyldan valdi auðvitað með samþykki þeirra. Þetta var góð fjölskyldustund í skóginum með mömmu og pabba, jafnvel afa og ömmu.

 

Svo að loknu erfiðinu að þramma í snjónum um skóginn, finna rétta tréð í stofuna heima, fella það og draga síðan út úr skóginum uppá bílaplan. Þá var gott að fá sér kakó í furulundinum, þar sem fullorðna fólkið gat spjallað saman, en þau leikið sér áfram í snjónum. Það virtist sem fjölskyldur hefðu mælt sér mót í Smalaholti og kölluðu á milli sín „eruð þið búin að finna tréð“.

 

Opinn jólaskógur á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar er aðeins einn laugardag fyrir jól, en þar gefst íbúum bæjarins kostur á að koma í skóginn í Smalaholti og upplifa sanna jólastemningu með því að kaupa jólatré sem vaxið hefur í heimabyggð. Þetta er fjórða árið sem skógurinn er opnaður fyrir jólatréssölu, enda komin tími á að grisja skóginn sem hefur vaxið þarna upp frá árinu 1989 þegar gróðursetningar hófust í Smalaholti.

Skógræktarfélagar fagna því að geta gefið fjölskyldum í bænum þetta tækifæri innan bæjarmarkanna.

 

Með jólakveðju stjórn skógræktarfélagsins

jólaskógur

Með Fréttir

Ágætu félagar

 

Næstkomandi laugardag 14. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti við Vífilsstaðavatn á milli kl. 12:00 og 16:00. Aðallega er um að ræða stafafuru sem nú er orðin vinsælt jólatré á heimilum Íslendinga. Hún er bæði barrheldin og ilmar vel. Einnig verða á boðstólum ágætis blágreni úr ræktun skógræktarfélagsins.

 

Fjölskyldan getur sjálf sagað sitt eigið jólatré en aðstoð er einnig hægt að fá á staðnum ef óskað er. Ef sög er til á heimilinu er ágætt að hafa hana með. Eitt verð, kr. 5000, er á öllum trjám. Auk þess verður boðið upp á heitt kakó og piparkökur. Veðurspáin gerir ráð fyrir að snjórinn haldist og gerum við ráð fyrir góðri jólastemningu í skóginum þennan dag.

 

Með jólakveðju,

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar,

Jólaskógur

Með Fréttir

Jólaskógur

Íslenska jólatréð

Smalaholti við Vífilsstaðavatn

Opið laugardaginn 14. desember kl. 12-16

Fjölskyldan sagar eigið jólatré

Eitt verð kr. 5000

Boðið upp á

kakó og piparkökur

Skógræktarfélag Garðabæjar

 

Myndakvöld

Með Fréttir

Myndakvöld frá Klettafjöllum Colorado

 

Skógræktarfélag Garðabæjar býður öllum áhugasömum til myndakvölds þriðjudaginn 5. nóvember sem hefst kl.20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

 

Um er að ræða sannkallaða haustlitadýrð úr ferð skógræktarfélaganna til Colorado daganna 26. sept.- 5.okt. s.l.

Stjórnin