Skip to main content
All Posts By

einar

Haustferð fellur niður

Með Fréttir

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar þykir leitt að tilkynna að vegna kórónuveirufaraldursins fellur árleg haustferð félagsins niður í ár. Við stefnum hins vegar á að mæta tvíefld til leiks að ári og bjóðum þá upp á spennandi og fræðandi haustferð.

 

Barbara afhendir Reyni Þorsteinssyni, formanni skógræktarfélags Skilmannahrepps, plöntur með þakklæti fyrir móttökurnar.

Skógardagur í Smalaholti

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar stendur að skógardegi í Smalaholti laugardaginn 20. júní kl. 13-15.

Boðið verður upp á ratleik fyrir alla fjölskylduna.

Lagt verður af stað frá bílastæðinu í Smalaholti við Elliðavatnsveg.

Viðburðurinn er hluti af ,,Lífi í lundi“ en undir merkjum þess er blásið til viðburða í skógum víða um land.

 

Höfum gaman saman í skóginum!

 

Skógræktarfélag Garðabæjar

 

Efnt var til ratleiks í skóginum í Sandahlíð á Skógardeginum í fyrra.

Vinnukvöld í Smalaholti

Með Fréttir

Tíu félagar úr Skógræktarfélagi Garðabæjar mættu í Smalaholtið þriðjudaginn 9. júní  í góðu veðri til að vinna að ýmsum umbótum í skóginum kringum Trjásýnistíginn. Borinn var áburður á tré, slegin lúpína frá trjánum, tré snyrt og trjástubbar sagaðir. Einnig voru staurar með trjámerkingum málaðir.

 

Það voru sælir og ánægðir félgar sem settust niður í Furulundi eftir vel unnin verk til að fá sér hressingu, en Furulundur er áningarstaður fyrir ofan Trjásýnistíginn.

Vinnukvöld 9. júní

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar stendur fyrir vinnukvöldi þriðjudagskvöldið 9. júní. Hist verður í aðstöðu félagsins við Vífilsstaðavatn kl. 19 og haldið þaðan í Smalaholt og hugsanlega einnig í Sandahlíð.

Sinna þarf ýmsum verkefnum svo sem áburðargjöf á valdar plöntur, saga stubba eftir jólaskóg, reita lúpínu frá plöntum, mála staura og borð, klippa greinar frá stígum, merkja nýtt stígstæði og tína rusl.

Fólk er hvatt til að koma með kaffi í brúsa eða aðrar veitingar til að njóta að verki loknu.

Allir velkomnir!

 

Erla Bil heiðursfélagi

Með Fréttir

Erla Bil  Bjarnardóttir kosin heiðursfélagi

Skógræktarfélags Garðabæjar

Á aðalfundi Skógræktarfélags Garðabæjar 11. maí 2020 var Erla Bil Bjarnardóttir kosin heiðursfélagi en stjórn félagsins samþykkti á stjórnarfundi í febrúar að leggja tillöguna fyrir aðalfund.

Erla Bil Bjarnardóttir og Skógræktarfélag Garðabæjar hafa verið samofin í yfir 30 ár en hún var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins.

Hún var kosin fyrsti formaður félagsins á stofnfundi þess 24. nóvember 1988 og starfaði sem slíkur í 31 ár eða allt þar til á aðalfundi í mars 2019 er hún lét af störfum.

Hún hefur unnið ötullega að framgangi félagsins og uppbygginu þess hvort heldur er varðar að útvega svæði til ræktunar fyrir félagið eða gróðursetningu á þeim. Skógræktarfélag Garðabæjar hefur haft umsjón með gróðursetningu á eftirfarandi sjö svæðum, Smalaholt, Sandahlíð, Hnoðraholt,  Hádegisholt, Tjarnholt, Leirdal og í Brynjudal.

Sem dæmi um öflugt starf undir hennar stjórn þá gerði félagið samning um Landgræðsluskóga 1990, við stjórn Skógræktarfélags Íslands sem tryggði félaginu plöntur til gróðursetningar. Þann 10. maí 1990 hófst Landgræðsluskógaverkefnið  með gróðursetningu í Smalaholti með þátttöku frú Vígdísar Finnbogadóttur forseta, þingmanna, bæjarfulltrúa og fjölda fólks. Átakið var mjög öflugt þetta sumar en þá voru settar niður um 70 þúsund trjáplöntur í Garðabæ, eða um tíu plöntur á hvern Garðbæing. Þetta verkefni lýsir vel stórhug og atorku Erlu Biljar.

Erla Bil hefur ekki aðeins haft forystu um að fá fyrir hönd félagsins lönd til gróðursetningar og skipuleggja gróðursetningu á þeim. Hún var einnig í farabroddi þegar svæðin í Smalaholti og Sandahlíð voru skipulögð sem var forsenda þess að hægt væri að leggja útivistarstíga og áningastaði á svæðunum öllum til heilla.

Hér hafa aðeins verið talin upp nokkur verkefni sem Erla Bil hefur verið hvatamaður að og unnið að fyrir hönd Skógræktarfélags Garðabæjar.

Erla Bil hefur svo sannarlega lagt sitt að mörkum í þágu skógræktar í Garðabæ svo og útivistar og þar með loftlagsmála í yfir þrjá áratungi.

Kristrún Sigurðardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar.

 

Erla Bil Bjarnardóttir, heiðursfélagi Skógræktarfélags Garðabæjar, ásamt Kristrúnu Sigurðardóttur, formanni félagsins.

Við gróðursetningu í Smalaholti árið 1990.

Erla Bil ávarpar gesti við upphaf landgræðsluskógaátaksins 10. maí 1990.

 

Erla Bil ásamt Brynjólfi Jónssyni, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands, við upphaf landgræðsluskógaátaksins árið 1990.

Grillað í Sandahlíð á skógræktardeginum 1995.

Jólatrjáareitur í aðstöðu Skógræktarfélags Garðabæjar árið 1996.

Erla Bil og Björn Már vinna að umhverfinu kringum Sandahlíð árið 1997.

Kaffipása í Brynjudal árið 2001.

Við aðstöðu Skógræktarfélags Íslands í Brynjudal árið 2008.

Í Smalaholti árið 2003.

Stígurinn í Smalaholti hælaður árið 2009.

Stígar í Smalaholti opnaðir.

Erla Bil virðir fyrir sér skóginn í Smalaholti frá bekk á Brúnastíg.

Á bekk úr grisjunarviði í Smalaholti árið 2019.

Aðalfundur 2020

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2020

mánudaginn 11. maí kl. 20:00

í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli

 

DAGSKRÁ

Venjuleg aðalfundarstörf:

Kosning fundarstjóra

Skýrsla stjórnar 2019

Reikningar félagsins 2019

Ákvörðun um félagsgjöld 2020

 

Stjórnarkjör:

Kosning þriggja aðalmanna

Kosning þriggja varamanna

Kosning vara skoðunarmanns reikninga

Kosning heiðursfélaga Skógræktarfélags Garðabæjar

Önnur mál

 

Kaffiveitingar í boði félagsins

 

Gætum þess að halda tveggja metra regluna – nóg pláss

 

Allir hjartanlega velkomnir

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Áformum í Smalaholti mótmælt harðlega

Með Fréttir

Skógræktarfélag Garðabæjar mótmælir skipulagstillögu

þar sem 15 hektarar af útivistarskógi í Smalaholti eru teknir undir golfvöll

 

Miðvikudaginn 11. desember 2019 var haldin fjölmenn kynning í Sveinatungu í Garðabæ á rammahluta aðalskipulags Vífilsstaðalands. Um var að ræða íbúakynningu á forkynningarstigi þar sem Jóhanna Helgdóttir hjá Eflu kynnti skipulagstillögu sem byggð er á grunni vinningstillögu úr hugmyndasamkeppni um skipulag Vífilsstaðalands 2017. Samkvæmt vinningstillögunni var skógræktinni í Smalaholti að mestu hlíft fyrir ásókn golfvallarins en það sama er ekki hægt að segja um núverandi tillögu. Kynninguna má sjá í heild sinni á eftirfarandi slóð: https://www.gardabaer.is/media/skipulagsmal/2424-093-KYN-001-V01-Ibuakynning-20191211.pdf.

Formaður Skógræktarfélags Garðabæjar Kristrún Sigurðardóttir mótmælti á fundinum fyrir hönd félagsins framkominni skipulagstillögu enda verið að skipuleggja golfvöll inn í allt að 30 ára gróskumikinn útivistarskóg. Tillagan er algjör tímaskekkja þar sem skógar gegna mikilvægu hlutverki í loftlagsmálum svo ekki sé talað um 30 ára gamlan skóg sem er mun afkastameiri við að vinna koltvísýring úr andrúmsloftinu en yngri skógar. Allir þurfa að leggjast á eitt til að vinna gegn loflagsvánni og eru yfirvöld í  Garðabær ekkert undanskilin í þeim efnum.

Hér fyrir neðan er kort af núverandi golfvelli og hluta af skóginum í Smalaholti. Lega fyrirhugaðs golfvallar hefur verið merkt með gulu en fjólubláu strikin sýna helstu útivistarstíga í Smalaholti:

Yfirlýsing Skógræktarfélagsins í heild sinni er hér fyrir neðan:

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar mótmælir harðlega tillögunni sem kynnt var hér áðan er varðar stækkun golfvallarins inn í skóginn í Smalaholti.

Svo virðist sem fæstir golfarar, skógræktarmenn og jafnvel bæjaryfirvöld svo ekki sé talað um almenning átti sig á hversu stór hluti af skóginum í Smalaholti, samkvæmt skipulaginu, mun fara undir golfvöll. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að 15 ha af útivistarskógi í Smalaholti verði teknir undir golfvöll sem er um 1/3 af skóginum í Smalaholti. Til að við áttum okkur  betur á hversu stórt svæði 15 ha er þá samsvarar það Byggðum í Garðabæ þ.e. Hlíðarbyggð, Brekkubyggð, Dalsbyggð og Hæðarbyggð.

Þá hljómar undarlega í eyrum okkar skógræktarmanna ummæli í Morgunblaðinu 30. nóvember s.l. í frétt sem heitir „Spennandi svæði í Vetrarmýri“ en þar segir í lok fréttar: „breyta á legu golfvallarins í átt að skógræktinni“ Ekkert er talað um að farið verði yfir 15 ha af skógi og hann eyðilagður. Og í Garðapóstinum 5. desember segir orðrétt í frétt frá GKG sem heitir „Spennandi tímar hjá GKG“: „Í fyllingu tímans verður byggður nýr 9 holu völlur sem mun teygja sig niður að Vífilsstðavatni“ Í hvorugu tilfellinu er minnst á að golfvöllurinn fari yfir 15 hektara skóg sem er allt að 30 ára gamall. Ræktaður af íbúum Garðabæjar sem hafa lagt metnað í að bæta umhverfið öllum til heilla. Einnig segir í fréttinni: „Þegar hann verður tilbúinn mun Mýrin leggjast af sem golfvöllur“. Þarna mætti bæta við: og einnig 15 hektara skógur í Smalaholti.

Plöntun í Smalaholti hófst 1989 þar sem nemendur skólanna lögðu hönd á plóg svo og fjöldi bæjarbúa. Í dag er því allt að 30 ára gamall skógur í Smalaholti sem gegnir mikilvægu hlutverki sem útivistarskógur en stígar sem eru um einn og hálfur kílómetri á lengd liggja um svæðið sem fyrirhugað er að taka undir golfvöll auk margra áningastaða. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði í Garðabæ sem veitir bæjarbúum og öðrum gestum mikla ánægju árið um kring.

í loftlagsmálum gegnir skógurinn ekki síður mikilvægu hlutverki en eins og öllum ætti að vera kunnugt er skógrækt ein af mótvægisaðgerðum í loftlagsmálum. Því stærri sem trén eru því meira gagn gera þau. Á svæðinu sem lagt er til að fari undir golfvöll er þéttur gróskumikill skógur þar sem trén eru allt að 10 m há. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og flestir keppast við að vinna gegn loflagsvánni þá leggja yfirvöld í Garðabæ til að 15 hektarar af gróskumiklum skógi verði útrýmt.

Vonandi ber bæjaryfirvöldum gæfa til að snúa frá þessari fráleitu skipulagstillögu sem kynnt var hér áðan, þar sem gróskumiklum útivistarskógi á 15 hekturum af landi, öllum landsmönnum og umhverfinu til heilla verði skipt út fyrir golfvöll.

 

Kristrún Sigurðardóttir,

formaður Skógræktarfélags Garðabæjar

Jólastemning í Smalaholti

Með Fréttir

Jólaskógur var haldinn í Smalaholti á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 14. desember. Fjölskyldur lögðu leið sína í skóginn til að velja sér jólatré og nutu útiveru í leiðinni, er þær röltu um skóginn í leit að hinu eina sanna jólatré. Boðið var upp á heitt kakó og piparkökur í skógarrjóðri við opinn eld. Mjög jólalegt og fallegt var í Smalaholtinu og mikil ánægja og gleði skein úr hverju andliti þrátt fyrir að svalt væri í veðri.

Fólk hjálpast að við að pakka tré í net. Þegar rétta tréð var fundið gat fólk ornað sér við opin eld og gætt sér á heitu súkkulaði og piparkökum.

Móðir og barn alsæl með nýfundið jólatré.

Jólaskógur í Smalaholti

Með Fréttir

Jólaskógur verður í Smalaholti laugardaginn 14. desember kl. 12:00 –16:00.

Aðkoma að svæðinu er frá Elliðavatnsvegi norðan við Vífilsstaðavatn.

 

Fjölskyldan velur sér tré í skóginum og fellir sjálf.

Fallegar furur og greni. Sama verð á öllum jólatrjám óháð stærð kr. 7.000.-

 

Boðið verður upp á kakó og piparkökur.

Kynningarfundi frestað

Með Fréttir

Vegna afleitrar veðurspár þá hefur verið ákveðið að fresta almennum kynningarfundi um skiplulag Vífilsstaðalands sem halda átti á morgun þriðjudaginn 10.desember klukkan 17.00 til miðvikudagsins 11.desember klukkan 17.00.