Skip to main content
Flokkur

Fréttir

skógræktarfélagar í Bæjarstaðarskógi

Með Fréttir

Skógræktarfélagar í Bæjarstaðarskógi

 

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir ferð austur í Öræfi dagana 25. og 26. september síðastliðinn að heimsækja skóginn í Bæjarstað eins og heimamenn segja og votta Reyninum í Sandfelli virðingu.


Um 80 ár er frá friðun Bæjarstaðarskógar er Hákon Bjarnason ásamt sjálfboðaliðum úr Öræfum afgirtu 22 ha með 2200 m girðingu, þá var skógurinn 12 ha. Tilefni ferðarinnar var að minnast friðunar skógarins. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ, var leiðsögumaður göngunnar í Bæjarstað, enda gjörkunnugur á svæðinu. Vakti hann athygli á margvíslegu á leið okkar s.s. útbreiðslu birkisins út frá skóginum, sjálfgrisjun í skóginum bæði þeim eldri og yngri. Veðrið lék við göngufólkið sem hafði flýtt för í skóginn vegna slæmrar veðurspár. En veðrið var yndislegt með hreinni og tærri fjallasýn umhverfis og að Morsárjökli.

Mjög áhugaverð fræðsluerindi um Bæjarstaðarskóg fluttu Bjarni Diðrik, Sigurður H. Magnússon, Þorsteinn Tómasson og Aðalsteinn Sigurgeirsson.

 

Í lok ferðar var ekið austur að Sandfelli, þar sem reyniviðurinn staki var útnefndur „Tré ársins 2015“ að viðstaddri fjölskyldunni ættaðri frá Sandfelli ásamt skógræktarfélögunum. Reynirinn sem var gróðursettur árið 1923, kom nokkurra ára gamall úr gróðrastöðinni á Hallormsstað.

 

Frábær ferð til heiðurs hinum aldna skógi og reynivið.





Haustferð 2015

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar 2015

 

Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 4. september um Kjósina. Ferðin hófst í ræktun Sigþóru Oddsdóttur sem ættuð er frá Sandi, þar sem skoðuð var ræktun hennar og fjölskyldu til tuga ára á sandeyrum við Sandá. Svæðið er erfitt til ræktunar en þegar mokuð er hola fyrir plöntur þarf helst að nota haka og skóflu því upp kemur sandur og möl og síðan þarf að bæta mold í holuna. Þrátt fyrir það er þarna ótrúlega fljöbreytt og gróskumikil ræktun. Þaðan lá leiðin í Gildruholt sem er í landi Möðruvalla I þar sem Kristrún Sigurðardóttir og Símon Ólafsson ásamt fjölskyldu hafa ræktað og mótað um 3 hektara af landi síðan 1972. Í Gildruholti er landslag fjölbreytt þar sem skiptast á klettar, mýri og móar og Gildruholtslækur liðast um landið með fjórum mismundi brúm. Gróður er mjög fjölbreyttur með bæði nýjum og gömlum trjám samtals um 170 tegundir. Um landið hlykkjast um 2 km af stígum og vegum sem flestir eru slegnir grasstígar en einnig malar- og steinlagðir stígar. Hópurinn snæddi hádegisnesti í Gildruholti og að lokinni göngu um landið var boðið upp á tertu og kaffi áður en haldið var á næsta áfangastað.


Endað var á Stekkjarflöt, ræktun Ólafs Oddssonar og Eyglóar Rúnarsdóttir konu hans en skógurinn er kallaður Ólaskógur. Þar hófst ræktun um 1980 en landið er úr jörðinni Neðrahálsi þar sem Ólafur ólst upp. Ólaskógur er mjög fallegur og fjölbreyttur þar sem tekist hefur rækta skóg sem lítur út eins og náttúrulegur skógur. Ólafur tekur oft á móti hópum í skóginn þar sem hann fræðir fólk og kennir því að upplifa skóginn á mismunandi vegu með því að hlusta á skóginn, skynja lykt og viðkomu hans.


Þrátt fyrir smá úrkomu í logni nutu um 30 félagar úr Skógræktarfélaginu ánægjulegrar og fróðlegrar ferðar sem endra nær.


Skógræktarfélagar við ræktun Sigþóru Oddsdóttur frá Sandi.




Sigþóra Oddsdóttir tekur við plöntum úr hendi Barböru Stanzeit, gjaldkera Skógræktarfélags Garðabæjar.


Steinbrú í Gildruholti.


Kristrún Sigurðardóttir og Símon Ólafsson, gestgjafar í Gildruholti, taka við þakklætisvotti frá ferðafélögum.


Ólafur Oddsson sýnir hópnum ræktunina í Ólaskógi.








bekkir

Með Fréttir

Nýir bekkir á skógræktarsvæðunum

 

Hlynur Gauti Sigurðsson hefur starfað sem verktaki á skógræktarsvæðum Skógræktarfélags Garðabæjar í sumar en hann er menntaður landlagsarkitekt og borgarskógfræðingur. Þekking hans og reynsla hefur komið að góðum notum og sem dæmi má nefna að í upphafi starfsins kannaði hann skógræktarsvæði félagsins mjög vel, með nokkurs konar úttekt sem ekki hefur verið gerð áður.

Honum fannst vanta á skógræktarsvæðin eitthvað til að tylla sér á annað en grjót. Smíðaði Hlynur því bekki úr trjábolum sem staðsettir eru í trjásýnireit í Smalaholti, meðfram kurlstígnum upp Sandahlíð og í skóginum í Lundamóa. Bekkirnir eru smíðaðir úr mismunandi trjátengundum þ.e. ösp, furu og greni. Það er von félagsins að útivistarfólk sem leggur leið sína um svæðin njóti þess að tylla sér á þá og hvíla lúin bein áður en það heldur ferð sinni áfram.

 

Haustferð 2015

Með Fréttir

Haustferð 5. september 2015

 

Haustferðir Skógræktarfélags Garðabæjar á undanförnum árum hafa heppnast ágætlega og mælst vel fyrir. Þar hafa félagsmenn fengið fræðslu um ræktun skóga og tegundaval. Þessar ferðir eru þó ekki síst skemmtiferðir í góðum félagsskap.

 

Á þessu hausti efnum við til ferðar um Kjósina þar sem komið verður við hjá þremur ræktendum.

 

Skógræktarfélagið leggur til rútu í ferðina en þátttakendum er bent á að taka með sér nesti til dagsferðar og klæðnað eftir veðri.

 

Brottför laugardag 5. september kl: 9.00 frá bílastæði á efra Garðatorgi.

 

Þeir, sem hyggjast taka þátt í þessari ferð þurfa að tilkynna það sem fyrst eigi síðar en fimmtudagskvöldið 3. sept nk. til formanns: Erlu Biljar Bjarnardóttur, netfang: bil@internet.is eða síma: 820 8588.

 

Takið laugardaginn 5. september frá til haustferðar skógræktarfélagsins.

Fylgist nánar með á vef félagsins www.skoggb.is

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Árleg Brynjudalsferð

Með Fréttir

Árleg Brynjudalsferð

Skógræktarfélagar fóru í árlega ferð sína í Brynjudal í Hvalfirði þann 7. júlí síðastliðinn til að vitja um jólatrjáareit félagsins. Reiturinn er inni í  Brynjudal norðanverðum ásamt jólatrjáaræktunarreitum fleiri skógræktarfélaga á suðvesturhorninu.

Erindið var að líta eftir trjánum og gróðursetja nokkrar plöntur í viðbót í reitinn meðal annars blágreni í pottum og fjölpottaplöntur (stafafuru og fjallaþin).

Mikill og góður vöxtur er á trjám í reitnum sem félagar voru mjög ánægðir með að sjá og ekki bar á sviðnum furum né greni sem hefur verið áberandi í vor og sumar.

 

 

 

 

 

Lundamói athöfn

Með Fréttir

Gróðursetning í tilefni þess að 35 ár eru frá kjöri Vígdísar til forseta

Skógræktarfélag Garðabæjar og umhverfisnefnd Garðabæjar stóðu að gróðursetningarathöfn í Lundamóa laugardaginn 27. júní í tilefni að 35 ár eru frá kjöri frú Vígdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands.

 

Þrjú birkitré voru gróðursett að hætti frú Vigdísar, fyrir stúlkur gróðursetti Arna Rún Atladóttir 8 ára, fyrir drengi gróðursetti Jökull Snær Gylfason 17 ára sem bæði eru félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar. Jóna Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar flutti ávarp og gróðursetti tréð fyrir börn framtíðarinnar. Erla Bil Bjarnardóttir sagði frá sögu Lundamóa sem hefur komið við sögu við ýmsar viðhafnir t.d. er gestir fjölmenns norræns vinabæjarmóts gróðursettu þar í vinabæjarlund ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta. Fyrstu gróðursetningar í Lundamóa voru á árunum 1984 – 1988.

 

Fjöldi fólks lagði leið sína í Lundamóa í tilefni dagsins og naut þar samveru, söngs og harmonikkutóna í skjóli skógarins.

 

Hér má sjá myndband frá gróðursetningunni sem Hlynur Gauti Sigurðsson, verktaki Skógræktarfélags Garðabæjar, gerði.

 

Jóna Sæmundsdóttir gróðursetur fyrir börn framtíðarinnar.

 

Erla Bil Bjarnardóttir formaður Skógræktarfélags Garðabæjar og Jóna
Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar.

Jökull Snær Gylfason gróðursetur tréð fyrir drengi.

Arna Rún Atladóttir gróðursetur tréð fyrir stúlkur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lundamói

Með Fréttir

Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur

Komið verður saman í Lundamóa í tilefni þess að 35 ári eru liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær standa saman að gróðursetningu að hætti Vigdísar sem er að gróðursetja þrjár trjáplöntur, eina fyrir stúlkur, eina fyrir pilta og þá þriðju fyrir ófædd börn.

Athöfnin verður laugardaginn 27. júní um allt land sem samstarfsverkefni skógræktarfélaga og sveitarfélaga og hefst hjá okkur í Lundamóa kl. 13:00.

Lundamói er opið svæði austan við Lundahverfi sem hallar að Reykjanesbraut, sem nú er umgirt grænni jarðvegsmön. Margar leiðir liggja að Lundamóa, þar um liggur ein aðalsamgönguleið göngu- og hjólastíga gegnum bæinn, frá Hafnarfirði norður í Kópavog. Svæðið er núna skógi vaxið og tilvalinn útivistarstaður í bæjarlandinu. Umhverfishópar í sumarstörfum hjá bænum hafa verið að leggja stíga út kurli um svæðið til að lokka fólk af aðalstígnum inn á svæðið sem opnast með útsýni til Vífilsstaða.

Lundamói á töluverða sögu, fyrstu gróðursetningar í móann voru á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar þegar Ólafur Vilhjálmsson á Bólstað, formaður félagsins, gróðursetti í móann á tímabilinu 1984 til 1988. Trjátegundir sem gróðursettar voru þá voru helst birki, stafafurur, sitkagreni og viðjur, þessi tré mynda skógarlund í miðjum Lundamóa. Haustið 1988 var Skógræktarfélag Garðabæjar stofnað eftir að Ólafur og Erla Bil garðyrkjustjóri fengu Smalaholt í landi Vífilsstaða til skógræktar.

Lundamóinn var í sviðsljósinu 26.07.1992 er fjölmennt norrænt vinabæjamót var haldið í Garðabæ. Þá gróðursettu gestir mótsins með frú Vigdísi forseta í fararbroddi plöntur í Vinabæjarlundinn. Áhugi gestanna beindist auðvitað að frú Vigdísi gróðursetja trjáplöntu í reitinn með myndavélar á lofti. Aftur heimsóttu norrænir gesti Vinabæjarlundinn sumarið 2012.

Skjólbeltið sem skermar af móann frá endilangri byggð Lundahverfis var gróðursett í þeim tilgangi að hefta snjó að lóðum og húsum. Því það hafði komið fyrir á snjóþungum vetrum að þakkantar húsa við Efstalund og Hörpulund sliguðust undan snjóþyngslum. Skjólbeltið mætti fara að grisja og opna því það hefur gengt sínu hlutverki.

Rauðgrenitrjám var komið fyrir innan við skjólbeltið eftir að garðyrkjustjóri hafði komið þeim til af fræi úr grenikönglum sem héngu á jólatrénu frá vinabænum Asker í Noregi, fyrir um tveim áratugum síðan.

Lundamói varð fyrir valinu í júní 2001 þegar Skógræktarfélagið gaf Garðabæ 25 birkitré af emblu kvæmi í tilefni 25 ára afmælis kaupstaðaréttinda Garðabæjar. Þá tók Ásdís Halla Bragadóttir þáverandi bæjarstjóri við trjánum og gróðursetti í móann ásamt skógræktarfélögum.

Nú geta íbúar notið Lundamóa sem skjólgóðs og gróðursæls svæðis.

Fjölmennum í Lundamóa laugardaginn 27. júní 2015 kl. 13:00

Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar

 

 

 

 

Vinnukvöld hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar 2015

Með Fréttir

Vinnukvöld hjá Skógræktarfélagi Garðabæjar í maí og júní 2015

 

26. maí (þriðjudagur) – Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

 

9. júní (þriðjudagur) – Brynjudalur – Mæting í aðstöðunni kl. 18:00 eða í Brynjudal kl. 19:00

 

 

16. júní (þriðjudagur) – Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

 

 

23. júní (þriðjudagur) – Mæting í aðstöðunni kl. 20:00

 

 

Aðstaða Skógræktarfélags Garðabæjar er austan við Vífilsstaðaspítala, þar sem Ellliðavatnsvegur og Vífilsstaðavegur mætast.

 

 

smalaholt furur nordur reit nov 2007

Vel heppnaður aðalfundur

Með Fréttir

Vel heppnaður aðalfundur


Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar var haldinn þann 23. mars í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli.

Skógræktarfélagið er öflugt, virkt og líklega fjölmennast af frjálsum félögum í Garðabæ. Afkoma félagsins var góð á síðasta starfsári, jólatrjáasala gekk vel með fjöldi fólks lagði leið sína í skóginn.


Breytingar urðu á stjórn er Arndís S. Árnadóttir gaf ekki lengur kost á sér, en hún hefur verið ritari félagsins í fjölda ára. Arndís er ekkert að yfirgefa Skógræktarfélagið þó hún víki úr stjórn til að hleypa að yngra fólki eins og hún sagði á aðalfundinum. Henni eru þökkuð vönduð vinnubrögð fyrir hönd félagsins. Eftirmaður Arndísar í stól ritara verður Hildigunnur Halldórsdóttir og tekur hún formlega við á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

Nýliðar í stjórn eru Einar Örn Jónsson og Huginn Freyr Þorsteinsson sem eru boðnir velkomnir til stjórnarstarfa.

 

Að loknum aðalfundarstörfum og kaffihléi flutti Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, erindi með myndum um Trjásafnið í Meltungu í Kópavogi. Þessi trjálundur er falin vin á höfuðborgarsvæðinu þar sem finna má margar sjaldséðar trjá- og runnategundir.


Arndís Árnadóttir, fráfarandi ritari Skógræktarfélags Garðabæjar.