Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Fræðslufundur

Með Fréttir

Fagleg umhirða trjá- og runnagróðurs – Fræðslufundur  

Fjallað um viðhald og umhirðu trjá- og runnagróðurs. Á fræðslufundinum verða leiðbeiningar og áherslur umhverfisnefndar um trjágróður í Garðabæ kynntar. Markmiðið er að gera bæinn meira aðlaðandi, m.a.  með fallegum og heilbrigðum trjágróðri.

Umræður og kaffiveitingar.

 

Fræðslufundurinn verður mánudaginn 31. mars í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og hefst kl. 20:00

Leiðbeinendur eru Baldur Gunnlaugsson garðyrkjutæknir og Magnús Bjarklind garðyrkjutæknir.

Aðalfundur

Með Fréttir

Aðalfundur

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2014 verður haldinn fimmtudaginn 20. mars 2014 í Safnaðarheimilinu við Kirkjulund og hefst kl. 20:00. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum mun gestur fundarins, Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóganna, Skógrækt ríkisins, flytja fræðsluerindi um eðaltré í skjóli skóga. Kaffiveitingar í boði félagsins.

 

Aðalfundarboð verður sent út þegar nær dregur.

 

Allir velkomnir.

 

Stjórnin

 

 

 

Jólaskógur 2013

Með Fréttir

Jólaskógur 2013

 

Skógræktarfélag Garðabæjar efndi til opins jólaskógar í Smalaholti laugardaginn 14. desember. Mikil stemning og gleði barna var í skóginum þar sem kyngdi niður jólasnjó. Krakkarnir lögðu mikið á sig við að saga tréð sem fjölskyldan valdi auðvitað með samþykki þeirra. Þetta var góð fjölskyldustund í skóginum með mömmu og pabba, jafnvel afa og ömmu.

 

Svo að loknu erfiðinu að þramma í snjónum um skóginn, finna rétta tréð í stofuna heima, fella það og draga síðan út úr skóginum uppá bílaplan. Þá var gott að fá sér kakó í furulundinum, þar sem fullorðna fólkið gat spjallað saman, en þau leikið sér áfram í snjónum. Það virtist sem fjölskyldur hefðu mælt sér mót í Smalaholti og kölluðu á milli sín „eruð þið búin að finna tréð“.

 

Opinn jólaskógur á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar er aðeins einn laugardag fyrir jól, en þar gefst íbúum bæjarins kostur á að koma í skóginn í Smalaholti og upplifa sanna jólastemningu með því að kaupa jólatré sem vaxið hefur í heimabyggð. Þetta er fjórða árið sem skógurinn er opnaður fyrir jólatréssölu, enda komin tími á að grisja skóginn sem hefur vaxið þarna upp frá árinu 1989 þegar gróðursetningar hófust í Smalaholti.

Skógræktarfélagar fagna því að geta gefið fjölskyldum í bænum þetta tækifæri innan bæjarmarkanna.

 

Með jólakveðju stjórn skógræktarfélagsins

jólaskógur

Með Fréttir

Ágætu félagar

 

Næstkomandi laugardag 14. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti við Vífilsstaðavatn á milli kl. 12:00 og 16:00. Aðallega er um að ræða stafafuru sem nú er orðin vinsælt jólatré á heimilum Íslendinga. Hún er bæði barrheldin og ilmar vel. Einnig verða á boðstólum ágætis blágreni úr ræktun skógræktarfélagsins.

 

Fjölskyldan getur sjálf sagað sitt eigið jólatré en aðstoð er einnig hægt að fá á staðnum ef óskað er. Ef sög er til á heimilinu er ágætt að hafa hana með. Eitt verð, kr. 5000, er á öllum trjám. Auk þess verður boðið upp á heitt kakó og piparkökur. Veðurspáin gerir ráð fyrir að snjórinn haldist og gerum við ráð fyrir góðri jólastemningu í skóginum þennan dag.

 

Með jólakveðju,

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar,

Jólaskógur

Með Fréttir

Jólaskógur

Íslenska jólatréð

Smalaholti við Vífilsstaðavatn

Opið laugardaginn 14. desember kl. 12-16

Fjölskyldan sagar eigið jólatré

Eitt verð kr. 5000

Boðið upp á

kakó og piparkökur

Skógræktarfélag Garðabæjar

 

Myndakvöld

Með Fréttir

Myndakvöld frá Klettafjöllum Colorado

 

Skógræktarfélag Garðabæjar býður öllum áhugasömum til myndakvölds þriðjudaginn 5. nóvember sem hefst kl.20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

 

Um er að ræða sannkallaða haustlitadýrð úr ferð skógræktarfélaganna til Colorado daganna 26. sept.- 5.okt. s.l.

Stjórnin

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 7. september um Reykjavík og nágrenni.

 

Ferðin hófst í Lambhaga þar sem skoðuð var öflug og áhugaverð salat- og spínatræktun undir leiðsögn eiganda fyrirtækisins, Hafbergs Þórissonar. Þaðan lá leiðin í Kálfamóa á Keldum þar sem Jóhann Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, sýndi okkur fjölbreytta trjáræktun sem hann hefur unnið að í yfir 60 ár.

 

Næst lá leiðin upp í Mosfellsbæ þar sem við fengum leiðsögn um ræktun Maríu og Erichs Köppel um landspildu sem þau fengu úthlutaða hjá Skógræktarfélgi Mosfellsbæjar í Hamrahlíðinni. Þar er fjölbreyttur gróður í snyrtilegu umhverfi sem þau hjón hafa unnið að undanfarin 15 ár. Um hádegisbil var haldið upp að Hafravatni þar sem skoðað var landsvæði Vilhjálms Lúðvíkssonar og fjölskyldu, ræktun sem hófst fyrir hálfri öld. Þar er farið að rækta ávaxtatré og rósir í skjóli trjánna með ótrúlegum árangri.

 

Að lokum heimsóttum við Jón Þorgeirsson og Guðrúnu Bóasdóttur í Seljadal sem liggur út frá Nesjavallaleið. Svæðið liggur í um 160 metra hæð þar sem allra veðra er von, en árangur af ræktun þeirra hjóna er ótrúlegur í ljósi þess að þau hófu hana aðeins fyrir fjórtán árum (1999). Þarna mátti finna hvert yndisskógatréð eftir annað, eins og við skógræktarfólk köllum þau tré og trjáplöntur sem þurfa skjól. Þarna voru eikur, gullregn, ýmsir eðalþinir og margt fleira sem dafnar með miklum ágætum í hrjóstrugu landinu. Galdurinn virðist vera að búa til stórar holur og þurfti yfirleitt járnkarl til að grafa og fylla síðan með hálfum hjólbörum af skít.

 

Í haustferðina mættu 32 félagar úr Skógræktarfélaginu og var hún ákafleg ánægjuleg og fróðleg sem endra nær.

 

Með haust kveðju

Haustferð 2013

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 7. september 2013

 

Að þessu sinni verður farið um Stór-Reykjavíkursvæðið og nokkrir fjölbreyttir ræktunarstaðir skoðaðir, allt frá fjöldaframleiðslu á salati til ávaxtaræktunar í reitum einstaklinga. Nánari dagskrá kynnt síðar.

Haustferðin er fyrir félagsmenn Skógræktarfélags Garðabæjar og um er að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til.

 

Takið daginn frá og skráið ykkur í ferðina til formanns á netfangið bil@internet.is eða í síma 8208588. Mæting við Tónlistarskólann við Kirkjulund kl. 9:00.

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013 í Garðabæ

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt landsfund Skógræktarfélaga á landsvísu í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli daganna 23.-25. ágúst sl. Aðildarfélög innan Skógræktarfélags Íslands eru 60, dreifð um allt land. Um 170 fulltrúar og gestir sóttu fundinn í Garðabæ.

Dagskrá fundadagana var fjölbreytt alla dagana. Flutt voru ávörp í upphafi fundar þar sem m.a. Gunnar Einarsson bæjarstjóri flutti ávarp. Mörg fræðsluerindi voru á dagskrá m.a. um eldvarnir á skógræktarsvæðum, hugmyndir að skipulagi Úlfljótsvatns, jarðar í eigu Skógræktarfélags Íslands, um Græna trefilinn og skipulag skógræktar ofan höfuðborgarsvæðisins, um útivist og skógrækt við endurskoðun svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Sýnd var heimildarmynd um upphaf landgræðsluskóga á Íslandi sem hófst á Smalaholti í Garðabæ 10. maí 1990 þegar frú Vígdís Finnbogadóttir forseti gróðursetti fyrstu plöntuna að viðstöddu fjölmenni. Gísli Gestsson kvikmyndargerðarmaður vann myndina en í henni er m.a. viðtal við frú Vigdísi sem tekið var nýlega í skóginum í Smalaholti. Fundarstjórar voru Sigurður Þórðarson frá Sk.Garðabæjar og Valgerður Auðunsdóttir frá Sk. Árnesinga.

Báða dagana var farið í skoðunarferðir, föstudeginum var farið í skoðunarferð um Garðabæ þar sem gestum var boðið í hús Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholti, í Grænagarð á Garðaholti þar sem Hólmfríður dóttir Sigurðar Þorkelssonar tók á móti skógræktarfólki og sagði frá ræktunarsögu fjölskyldunnar en harmonikuleikur Sigríðar Ólafsdóttur ómaði um skóginn. Endað var í Vífilsstaðahlíð þar sem tekið var á móti gestum með veitingum í boði Skógræktarfélags Reykjavíkur. Við það tækifæri undirrituðu Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Þröstur Ólafsson formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur samstarfsamning milli Garðabæjar og félagsins um rekstur á Garðabæjarhluta Heiðmerkur.

Eftir hádegi á laugardeginum var gengið um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar. Byrjað í Smalaholti þar sem ungur trjásýnireitur með merktum trjám og runnum var skoðaður. Við Furulund, áningarstað í Smalaholti gróðursetti frú Vigdís Finnbogadóttir 20 miljónustu landgræðsluskógarplöntuna, ask sem táknræna athöfn yfir landsverkefnið er hófst 1990 eins og áður kom fram. Því næst var gestum boðið í göngu um skóginn sem lauk í Sandahlíð með veitingum, lúðrablæstri og söng. Margir fulltrúar og aðrir gestir þáðu boð um leiðsögn um Hönnunarsafn Íslands á föstudag og í lok fundar á sunnudag. Hápunktur aðalfundarins var hátíðarkvöldverður þ.e. árshátíð skógræktarfélaganna. Þar mættu góðir gestir s.s. Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Júlía Ingvarsdóttir formaður umhverfisnefndar ásamt mökum. Ráðherra flutti ávarp til skógræktarfólks. Anna María Björnsdóttir söng einsöng, einnig var gestum skemmt þar sem leikið var á sög við undirleik á píanó. Veislustjóri var Guðni Ágústsson sem skemmti fólki með óviðjafnanlegu gamanmáli.

Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands veitti viðurkenningar í þágu skógræktar þeim Barböru Stanzeit gjaldkera Skógræktarfélags Garðabæjar til áratuga, Erlu Bil Bjarnardóttur formanni félagsins s.l. 25 ár, Sigurði Björnssyni fyrrum ritara félagsins og Sigurði Þorkelssyni í Grænagarði.

Stjórn Skógræktarfélags Íslands var endurkjörin í lok fundarins. Formaður þakkaði Garðbæingum fyrir góðan undirbúning fundarins þar sem allt gekk snurðulaust.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar og fleiri sem unnu að undirbúningi og framkvæmd landsfundarins eiga heiður skilið fyrir góðan undirbúning og framkvæmd. Bestu þakkir til IKEA og Ölgerðarinnar sem styrktu félagið með vöruúttekt og láni á vörum.

Skógræktarfélag Garðabæjar hélt aðalfund Skógræktarfélags Íslands 2013 í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá stofnun félagsins.

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar laugardaginn 7. september 2013

 

 

Haustferðin er fyrir félagsmenn og er um að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til. Að þessu sinni skoðum við fjölbreytta ræktun á Stór Reykjavíkursvæðinu allt frá salati að perum.

 

 

Takið daginn frá og skráið ykkur í ferðina til formanns á netfangið bil@internet.is eða síma 8208588.

Mæting við Tónlistaskólann við Kirkjulund kl.9:00

 

 

Stjórnin