Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Gönguleiðarkort

Með Fréttir

Gönguleiðakort um skógræktarsvæðin í Garðabæ

 

Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.

Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er. Stígagerðin hófst sumarið 2009 þegar félagið tók þátt í samstarfi um atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og Garðabæjar um verkefni á skógræktarsvæðunum og margir ungir Garðbæingar tóku þátt í.

 

Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð. Sagt er frá skógræktarsvæðum í umsjón Skógræktarfélags Garðabæjar og öðrum áhugaverðum skógarreitum og svæðum í bæjarlandinu. Einnig er sagt frá upphafi skógræktar í Garðabæ sem má rekja til skógardaga á Vífilsstöðum vorið 1911

 

Gönguleiðakortið var unnið af Árna Tryggvasyni skiltahönnuði og ljósmyndara í samráði við stjórn félagsins. Útgáfa kortsins er styrkt af Bæjarsjóði Garðabæjar. Hægt er að nálgast kortið í þjónustuveri Garðabæjar að Garðatorgi 7 og fljótlega verða settir upp kassar við inngang að skógræktarsvæðunum í Sandahlíð og Smalaholti. Skógræktarfélag Garðabæjar er opið öllum áhugasömum um trjá- og skógrækt (www.skoggb.is).

Brynjudalsferð 2013

Með Fréttir

Ágætu skógræktarfélagar;

 

Venjulega höfum við haldið í jólatrjáareit félagsins í Brynjudal fyrsta þriðjudagskvöld í júní. Að þessu sinni höfum við ákveðið að fresta ferðinni til þriðjudagsins 25. júní. Þá verða nauðsynlegar plöntur komnar til að gróðursetja og veðrið væntanlega upp á sitt besta í kringum Jónsmessuna.

 

Eins og áður er mæting  kl. 18:00 frá aðstöðu félagsins austan Vífilsstaða en þar verður sameinað í bíla og ekið upp í Hvalfjörð. Þið getið líka ekið sjálf beint upp í Brynjudal og er áætlað að vera þar um kl. 19:00. Áætluð heimkoma er um kl .22:00.

 

Þetta kvöld munum við bæði gróðursetja og gefa eldri plöntum áburð en jafnframt njóta góðs félagsskapar. Alltaf er gott að taka með sér skjólgóðan fatnað og nesti.

 

Við viljum jafnframt minna á að önnur þriðjudagskvöld í júní munum við hittast við aðstöðu félagsins kl. 20:00 og fara þaðan út á svæðin til gróðursetningar eða umhirðu.

 

Fylgist með á heimasíðu okkar: www.skoggb.is ef breytingar skyldu verða.

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Samið um umhirðu á skógræktarsvæðum

Með Fréttir

Samið um umhirðu á skógræktarsvæðum

22.03.2013

 

Samstarfssamningur Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar um samvinnu um ræktun og umhirðu á skógræktarsvæðum bæjarins var undirritaður á aðalfundi Skógræktarfélagsins 19. mars sl.

Í samningnum er kveðið á um að Skógræktarfélagið taki að sér tillögugerð um skipulag, hafi umsjón með og sjái um framkvæmdir við þau skógræktar- og útivistarsvæði sem eru skilgreind sem skógræktarsvæði í aðalskipulagi og eru utan Heiðmerkur. Svæðin eru: Smalaholt, Sandahlíð, Hnoðraholt, Tjarnholt, Hádegisholt og Leirdalur. Samtals eru þau 297 ha að stærð.

Verkefnaáætlanir til þriggja ára

Félagið skal gera rammaáætlanir til þriggja ára í samvinnu við umhverfis- og tæknisvið Garðabæjar um umsjón og umhirðu með svæðunum. Fram kemur að verkefnaáætlanir um gróðursetningar og aðrar framkvæmdir skuli unnar í samráði við umhverfisstjóra og lagðar fyrir umhverfisnefnd til umjföllunar.

Félagið ber einnig verkefnalega ábyrgð vegna atvinnuátakshópa og vegna vinnuhópa á vegum Vinnuskóla Garðabæjar sem vinna við afmörkuð verkefni samkvæmt framkvæmdaáætlun. Þá ber félaginu að kynna málefni sín og starfsemi með markvissri fræðslu.

Fær árlegan starfsstyrk

Garðabær veitir félaginu árlegan starfsstyrk samkvæmt samningnum. Á árunum 2013 og 2014 skal styrkurinn vera 2,5 milljónir með fyrirvara um samþykkt í fjárhagsáætlun

Samninginn undirrituðu þau Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélagsins. Um var að ræða endurnýjun samstarfssamnings sem gerður var fyrst árið 2008 í tilefni af 20 ára afmælis félagsins. Í ár er 25 ára afmæli Skógræktarfélags Garðabæjar.

Aðalfundur

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2013 verður haldinn

þriðjudaginn 19. mars n.k. kl. 20:00

í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

 

D A G S K R Á:

 

  • Undirritun samstarfssamnings Garðabæjar og skógræktarfélagsins, Gunnar Einarsson bæjarstjóri.
  • Myndasýning frá liðnu starfsári félagsins
  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Önnur mál
  • Kaffiveitingar í boði félagsins
  • Fræðsluerindi Kristins Þorsteinssonar garðyrkjufræðings um trjágróðurinn í garðinum.

Trjágróður skapar umgjörð sem hefur gífurleg áhrif á umhverfi okkar.
Við val og ræktun trjágróðurs í garða þarf að hafa margt í huga. Kristinn fjallar einnig um notkun trjáa og runna í nánasta umhverfi okkar.

 

Allir velkomnir – Takið með ykkur gesti

 

Stjórnin

Jólaskógur 2012

Með Fréttir

Jólaskógur í Smalaholti

                       

Jólastemning ríkti sannarlega í Smalaholti laugardaginn 15. desember þegar margar fjölskyldur komu í skóginn og söguðu sér jólatré. Jólaskógur í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar var haldinn þriðja árið í röð í Smalaholti og voru að þessu sinni grisjuð tré í reit sem Lionskúbburinn í Garðabæ hefur umsjón með. Félagskonur úr Lionsklúbbnum Eik buðu upp kakóveitingar í fururjóðri við samkomusvæði sem var útbúið og tekið í notkun í sumar.

Jólaskógur 2012

Með Fréttir

Jólaskógur 2012

 

Smalaholti við Vífilsstaðavatn

 

 

Opið laugardaginn 15. desember kl. 12-16

 

Fjölskyldan sagar eigið jólatré. Eitt verð kr. 5000

 

Boðið upp á kakó og piparkökur

 

Skógræktarfélag Garðabæjar

 

í samstarfi við Lionsklúbbinn Eik og Lionsklúbb Garðabæjar

Myndakvöld

Með Fréttir

MYNDAKVÖLD UM FERÐ SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS TIL ÞÝSKALANDS

 

Skógræktarfélag Íslands efndi til ferðar til Bæjaralands í Þýskalandi dagana 11.−18. september s.l.

 

Nokkrir félagar úr Skógræktarfélagi Garðabæjar slóust í för og munu skýra okkur hinum frá ferðinni í tali og með myndum næstkomandi þriðjudagskvöld 16. október. Þarna munum við kynnast einu vinsælasta héraði Þýskalands, skógum þess og öðrum menningarverðmætum á borð við kastala, klaustur og miðaldabæi. Ferðast var m.a. um Bayerischer Wald – stærsta og elsta þjóðgarð landsins, sem liggur að landamærum Þýskalands og Tékklands, en einnig staldrað við í Regensburg, Kelheim og München. Sjón er sögu ríkari. Fararstjóri var Hrefna Einarsdóttir, leiðsögumaður Marcus Kühling og túlkur í ferðinni var Barbara Stanzeit.

 

Myndakvöldið verður haldið í Safnaðarheimili Vídalínskirkju þriðjudagskvöldið 16. október 2012 og hefst klukkan átta. Barbara mun segja frá ferðinni og myndasmiður er Erla Bil.

 

Boðið er upp á kaffi og kleinur í hléinu.

 

Allir velkomnir.

 

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Haustferð 2012

Með Fréttir

.                                                                                                                                                      

 

 

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar            laugardaginn 1. september 2012

 

Fimmtánda haustferð félagsins verður að þessu sinni farin í Borgarfjörð. Þar verða nokkrir áhugaverðir ræktunarstaðir heimsóttir.

 

Ferðaáætlun:

  • Kl. 9:00 — Brottför frá Garðabæ ― mæting við stóra bílastæðið v/ Vífilsstaðaveg sunnan við Hofsstaði (á milli bláu húsanna á Garðatorgi og Kirkjulundar).
  • Heimsókn í Stallaskóg ― sem er ræktunarsvæði fjölskyldunnar á bænum Efri-Hrepp sem liggur á mörkum Andakíls og Skorradals.
  • Ekið um Skorradal undir leiðsögn Sigvalda Ásgeirssonar framkvæmdastjóra Vesturlandsskóga og komið í Háafellsskóg innan við Stálpastaðaskóg þar sem hádegisnestið verður snætt og gengið um skóginn. http://www.skogur.is/thjodskogarnir/vesturland/nr/15.
  • Um kl. 14:00–14:30 verður haldið í Reykholtsdal og komið að höfuðbólinu Reykholti þar sem stendur myndarlegur skógarreitur. Þar mun séra Geir Waage taka á móti hópnum og leiða um skógarstíga og segja frá.
  • Að lokum verða þau Björn Már Ólafsson og Sigríður Ólafsdóttir heimsótt í sumarbústað þeirra á Sturlu-Reykjum ― í námunda við Reykholt.
  • Heimkoma er áætluð um 19:00 -19:30.

 

Skógræktarfélagið leggur til rútu í ferðina, en þátttakendum er bent á að taka með sér nesti til dagsferðar og skjólgóðan fatnað.

 

Brottför verður laugardaginn 1. september kl. 9:00

frá bílastæðinu sunnan við Hofsstaði.

 

Þátttöku þarf að tilkynna sem fyrst og eigi síðar en fimmtudagskvöldið 30. ágúst n.k. með því að svara þessum pósti eða hafa samband við Erlu Bil, netfang bil@internet.is, eða í síma 820 8588.

           

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farinn laugardaginn 1 september. Lagt af stað frá Hofsstöðum kl. 9:00.

Haustferð

Með Fréttir

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar

 

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar verður farinn laugardaginn 1 september. Lagt af stað frá Hofsstöðum kl. 9:00.