Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Aðalfundur 2012

Með Fréttir

                                                                           Félag fyrir alla fjölskylduna

 

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2012 verður haldinn

þriðjudaginn 20. mars n.k. kl. 20:00

í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.  

 

 

D A G S K R Á:

 Myndasýning frá liðnu starfsári félagsins     

  1. 1.Venjuleg aðalfundarstörf
  2. 2.Önnur mál
  3. 3.Kaffiveitingar í boði félagsins
  4. 4.Barbara Stanzeit líffræðingur flytur erindi með myndum: Stórvirkið á Garðaholti. Um ræktun Sigurðar Þorkelssonar og Kristínar Gestsdóttur í Grænagarði

 

Allir velkomnir  –  Takið með ykkur gesti

 

Stjórnin

 

 

Aðalfundur 2012

Með Fréttir

AÐALFUNDUR 2012

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar verður haldinn í Safnaðarheimilinu þriðjudaginn 20. mars kl. 20:00. Að loknum aðalfundarstörfun og kaffiveitningum segir Barbara Stanzeit frá skógarreitnum Grænagarði á Garðaholti.

Allir velkomnir

Stjórnin

Sigríður Gísladóttir minning

Með Fréttir

Minningarorð um Sigríði Gísladóttur frá Hofsstöðum í Garðabæ

sem lést 6. janúar 2012, jarðsett þann 18. janúar 2012

 

 

Frá Skógræktarfélagi Garðabæjar          

 

Við minnumst kærs félaga, Sigríðar á Hofsstöðum. Hún var í undirbúningshóp og stofnfélagi Skógræktarfélags Garðabæjar árið 1988. Sigríður var gerð að fyrsta heiðursfélaga á aðalfundi félagsins 18. apríl 1999. Ekki vildi Sigga sitja í stjórn er stungið var uppá því við stofnun félagsins, heldur vildi vera virkur félagi í skógræktarstarfinu. Það hefur hún svo sannarlega verið alla tíð síðan þar til sjónin fór að svíkja hana fyrir nokkrum árum og erfitt var að ganga um í skógræktinni. Alla tíð hefur Sigga fylgst með og hvatt til dáða. Því vorum við félagar hennar í Skógræktarfélaginu glöð er hún ásamt systur sinni og dóttur mætti í sumar upp í Smalaholt við formlega opnun nýrra útivistarstíga og trjásýnireits. Smalaholtið er okkur skógræktarfólki sérlega kært því það er fyrsta svæði félagsins. Sigga hafði gaman að taka þátt í ferðum félagsins s.s. uppí Brynjudal þar sem félagið ræktar jólatrjáaskóg, austur að Gaddstöðum í Aldamótaskóga Skógræktarfélaganna, einnig við gróðursetningar í Garðakirkjugarði að ógleymdum haustferðum félagsins. Eitt sinn bauð hún stolt skógræktarfélögum til dóttur sinnar og tengdasonar að skoða ræktun þeirra að Espiflöt í Bláskógarbyggð „hvílíkt blómahaf“. Skógræktarfélagið varðveitir minningar um Siggu við ýmis skógræktar- og félagsstörf þar sem hún var jafnan kát er sest var í kaffipásum og spjallað. Hún var útivistarkona sem átti mörg áhugamál, henni var annt um heimabyggð sína og miðlaði fróðleik til okkar hinna um fyrri tíð og örnefni í Garðabæ.

 

Skógræktarfélagar minnast heiðursfélaga síns, sem ljúfrar og elskulegrar konu.

 

Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda hennar.

 

Skógræktarfélag Garðbæjar

Jólaskógur

Með Fréttir

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

 

Margir lögðu leið sína í árlegan jólaskóg í Smalaholti laugardaginn 17. desember s.l. Veðrið var eins og best verður á kosið, lygnt, smá frost og snjór yfir öllu. Jólaskógur er frábært tækifæri fyrir fjöldskylduna til að koma í skóginn, velja og saga sér jólatré og upplifa jólastemmningu úti í náttúrunni. Að þessu sinni voru tekin tré úr landssvæði sem Lionsklúbburinn Eik hefur ræktað undanfarin 20 ár. Eikarkonur buðu upp á heitt kakó og piparkökur og félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar aðstoðuðu gesti við skógarhögg. Aðallega var um að ræða stafafuru og höfðu trén sem mátti saga verið merkt með borða. Jólaskógurinn er kominn til að vera enda full þörf á að grisja skóginn þar sem trén fara ört stækkandi.

Smalaholt er framtíðar útivistarsvæði í Garðbæ þar sem allir eru velkomnir. Skógræktarfélagið hefur staðið fyrir lagningu göngustíga í Smalaholti undanfarin sumur og hyggst halda áfram uppbyggingu svæðisins á komandi árum.

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

Með Fréttir

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2011

 

Ágætu félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar og Lionsklúbbnum Eik.

Laugardaginn 17. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti milli kl. 13:00 og 16:00. Skógræktarfélag Garðabæjar og Lionsklúbburinn Eik  vinna saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Aðallega er um að ræða stafafuru og stöku greni og eingöngu má saga þau tré sem merkt hafa verið sérstaklega með plastborðum. Eitt verð, kr. 5000, er á öllum trjám og trén eru pökkuð í net eftir óskum. Aðeins staðgreiðsla er í boði. Ef sög er til á heimilinu er ágætt að hafa hana með.

Ráðlegt er að mæta vel klæddur en auk þess verður boðið upp á heitt kakó, kaffi og piparkökur í skóginum.

Aðkoma að skógræktarsvæðinu í Smalaholti er við bílastæðið af Elliðavatnsvegi, norðan við Vífilsstaðavatn. Flaggað verður á staðnum.

Gerum okkur glaðan dag í skóginum í Smalaholti.

Með jólakveðju,

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar og  Lionsklúbburinn Eikar

 

Haustferð 2011

Með Fréttir

Haustferð 2011

 

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var farin laugardaginn 17. september í blíðskapar veðri.

Haldið var austur í Fljótshlíð að Deild þar sem Sveinn Þorgrímsson og kona hans voru heimsótt . Þar var gengið um gróskumiklar hlíðar með ótrúlegum fjölbreytileika trjáplantna. Eftir um tveggja tíma göngu um skóginn var haldið að Heylæk I þar sem Sigurður Haraldsson ræður ríkjum. Þar var borðað hádegisnesti í fjósinu sem nú gegnir hlutverki minjasafns en Sigurður hefur sett upp ótrúlega skemmtilegt safn með fjölbreyttu úrvali af munum sem hann hefur safnað í gegnum árin. Þarna voru bílar, dráttavélar, mjaltarvél frá því um 1910 auk fjölda annarra muna. Síðan var gengið um skóginn þar sem aspir eru í skólbeltum og viðkvæmari tegundir þar fyrir innan. Vöxtur trjánna er ótrúlegur en ræktunin hófst 1992.

Að lokum var farið í sumarbústað Jóhannesar og Guðrúnar skammt frá Hvolsvelli en bústaðurinn er inni í skógræktargirðingu sem Skógræktarfélg Rangæinga á. Þar var tekið á móti ferðalöngum með glæsilegum kaffiveitinum úti á hlaði í haustblíðunni. Áður en haldið var heim á leið var gengið um ræktunarsvæði þeirra hjóna.

 

Haustferð 2011

Með Fréttir

 

Haustferð 17. september 2011

Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar fyrir félagsmenn verður farin laugardaginn 17. september n.k. Að þessu sinni verður farið í Rangárvallasýslu og skoðaðir nokkrir áhugaverðir staðir. Um er að ræða dagsferð í rútu sem félagið leggur til. Nánar auglýst síðar.

Sjá myndir og meiri upplýsingar um fyrri ferðir hér á heimasíðunni.

Vígsla á Trjásýnistíg

Með Fréttir

Trjásýnistígur í Smalaholti vígður

Nýr útivistarstígur var opnaður formlega í Smalaholti þriðjudaginn 9. ágúst s.l. hann er að hluta trjásýnistígur. Fjöldi manns mætti við opnunina í sumarblíðunni þar sem bæjarstjóri Garðabæjar Gunnar Einarsson og Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands klipptu á borða í tilefni af opnuninni. Gengið var um stíginn og að göngu lokinni þáðu gestir veitingar og nutu veðurblíðunnar undir hljóðfæraleik Emils Friðfinnssonar. Stígurinn er hluti af útivistarstígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar fékk skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af skógræktarhópum frá Garðabæ. Framkvæmdin er hluti verkefna sem unnin eru samkvæmt samstarfssamningi Skógræktarfélagsins, Garðabæjar og Skógræktarfélags Íslands.

Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er norðan Vífilsstaðavatns og er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Í Smalaholti hefur myndast skjólgóður skógur með fjölbreyttum gróðri sem auðvelt er að njóta með tilkomu göngustíga.

Opnun stíga og trjásýnistígs

Með Fréttir

Nýr trjásýnistígur í Smalaholti verður opnaður formlega þriðjudaginn 9. ágúst n.k. kl. 17:00. Stígurinn er hluti af stígum sem Skógræktarfélag Garðabæjar hefur skipulagt og lagðir hafa verið undanfarin sumur af atvinnuátaki og skógræktarhópum. Stígarnir eru lagðir með það í huga að gefa gestum tækifæri til að njóta fjölbreytts og vaxandi skógar í Smalaholti. Smalaholt er elsta skógræktarsvæði á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar en þar var byrjað að planta 1988. Sjá nánari upplýsingar um svæðið á https://www.skoggb.is/index.php/svaedin/smalaholt

Boðið er til göngu og fagnaðar þriðjudaginn 9. ágúst kl. 17:00 og eru allir sem hafa áhuga velkomnir. Mæting á aðalplani í Smalaholti við Elliðavatnsveg norðan Vífilsstaðavatns.

Skógarganga

Með Fréttir

Skógarganga Skógræktarfélagsins

Siðastliðið þriðjudagskvöld 12. júlí stóð Skógræktarfélagið fyrir göngu með leiðsögn Arndísar Árnadóttur list- og sagnfræðings með gróður- og byggingasögulegu ívafi um Vífilsstaði og nágrenni. Inn í þetta fléttaði svo Erla Bil garðyrkjustjóri af alkunnum skörungsskap ýmsum fróðleik um gróður, fólk og kartöflurækt á Vífilsstöðum. Gengið var um trjálundina á staðnum, gróðurinn skoðaður með vísun í upphaf trjáræktar á reitnum norðan við Vífilsstaðahælið fyrir nær hundrað árum. Ennfremur var vitjað um stæði gamla bæjarins á Vífilsstöðum niður við lækinn og spáð í gildi fornminja. Síðan var gengið um stóru trjásveigana á túninu sunnan við hælið sem gróðursettir voru fyrir hartnær fimmtíu árum. Þeir veittu sannarlega skjól fyrir sunnanvindinum þetta ánægjulega kvöld í  stórum hópi gróðurvina og áhugafólks um verndun Vífilsstaða sem höfuðbóls í Garðabæ. Þrátt fyrir nýslegin túnin mátti skynja hin yfirgefnu hús eitt af öðru. Þessi stórkostlegi staður er vannýtt auðlind Garðabæjar sem ekki má gleymast frekar en handritin og annar menningararfur.