Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Undirritun um Atvinnuátakið 2011

Með Fréttir

Atvinnuátaksverkefni undirritað

Síðast liðinn miðvikudag undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu.  Samningurinn var undirritaður á útivistarsvæðinu Smalaholti norðan megin við Vífilsstaðavatn þar sem fjöldi ungmenna er að störfum í sumar við stígagerð, skógrækt, umhirðu o.fl.   

Samningurinn er hluti af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við Innanríkisráðuneytið (áður Samgönguráðuneytið) hóf árið 2009. Þetta atvinnátak var hugsað sem þriggja ára verkefni árin 2009-2011. Samningurinn felur í sér vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri á á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti, Sandhlíð og Vífilsstaðahlíð.

Öll ungmenni sem sóttu um starf hjá Garðabæ fá vinnu í sumar í 8 vikur, um 400 ungmenni starfa hjá bænum í sumar og um helmingur af þeim taka þátt í skógræktarátakinu.

Heimasíðan

Með Fréttir

Heimasíða Skógræktarfélags Garðabæjar var opnuð formlega á aðalfundi félagssins 15. mars 2010 og er ætlun hennar að gera félagsmönnum kleyft að fylgjast með hvað er í gangi og einnig til að halda utan um félagsstafssemi, myndir og skjöl félagssins. Magnús Guðlaugsson bjó til síðuna og setti upp á kerfi sem heitir Joomla!, Magnús er ungur Garðbæingur og félagsmaður í skógræktarfélaginu.

 

Vefstjóri er: Sigurður Hafliðason

Kerfisstjóri er: Magnús Guðlaugsson

Aðalfundur 2011

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2011

verður haldinn mánudaginn 7. mars 2011 og hefst kl. 20:00 

 

Fundarstaður:

Safnaðarheimiilið Kirkjuhvoll við Kirkjulund

 

Dagskrá:

   1. Venjuleg aðalfundarstörf

   2. Önnur mál

   3. Kaffiveitingar í boði félagsins

   4. Gestur fundarins verður Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur við

       Landbúnaðháskóla Íslands.

Náttúruverndarlög

Með Fréttir

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar kom saman 11.janúar þar sem gengið var frá:

„Umsögn félagsins vegna Frumvarps til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, með síðari breytingum, sem lagt verður fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010-2011.“

Í umsögninni eru gerðar alvarlegar athugasemdir við breytingarnar á lögunum.

Vegna fréttar í Fréttablaðinu 13. janúar 2011 frá umhverfisráðuneytinu, um samráð við SÍ varðandi breytingar á lögum um náttúruvernd (http://www.visir.is/hofdu-sannarlega-samrad/article/2011274713954), sendi SÍ frá sér fréttatilkynningu í gær, þar sem segir að Skógræktarfélag Íslands kannist ekki við að samráð hafi verið haft við félagið við undirbúning frumvarps að breytingum á lögum um náttúruvernd. Fréttatilkynninguna má lesa á www.skog.is

Jólaskógur

Með Fréttir

Jólaskógur í Smalaholti

 

Laugardag 18. desember var opinn jólaskógur í Smalaholti. Skógræktarfélag Garðabæjar og Rótarýklúbburinn í Görðum unnu saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Skógrækt hófst í Smalaholti árið 1989 og komið að því að grisja skóginn. Mikil og góð þátttaka var í jólaskóginum, þar sem stórfjölskyldur komu og nutu saman útiveru og völdu sér jólatré.
Þó kalt væri, var kyrrt veður og allir vel búnir til útiveru. Svo var boðið upp á heitt kakó og piparkökur.
Skógræktarfélagið er mjög ánægt með hve þetta tókst vel og samstarfið við Rotaryklúbbinn.

  

17-12-2010_18-17-20_m    17-12-2010_19-29-01_m

Ánægðir viðskiptavinir

17-12-2010_18-36-29_m    IMG_0040_m

Trénu komið í netið                                                    Heitt kakó í kaupbæti  

Sala jólatrjáa

Með Fréttir

Opinn jólaskógur í Smalaholti 2010

Næstkomandi laugardag 18. desember verður opinn jólaskógur í Smalaholti milli kl. 12:00 og 16:00.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Rótarýklúbburinn í Görðum vinna saman að því að opna skóginn fyrir fjölskyldur bæjarins til að velja sér jólatré. Aðallega er um að ræða stafafuru og grenitegundir.

Eitt verð á öllum trjám er kr. 5000,- og trén eru pökkuð í net eftir óskum.

Ráðlegt er að mæta vel klæddur en auk þess verður boðið upp á heitt kakó.

Aðkoma að skógræktarsvæðinu í Smalaholti er við bílastæðið af Elliðavatnsvegi, norðan við Vífilsstaðavatn. Flaggað verður á staðnum.

Gerum okkur glaðan dag fyrir jólinn og njótum skógarins.

Með jólakveðju,

Skógræktarfélag Garðabæjar, Rótarýklúbburinn Görðum

Haustfundur 2010

Með Fréttir

Eru til skógar í Færeyjum?


Myndasýning og ferðasaga úr Færeyjarferð.

Dagana 30. ágúst – 3. september s.l. stóð Skógræktarfélag Íslands fyrir kynnisferð til Færeyja. Nokkrir félagar úr Skógræktarfélagi Garðabæjar voru með í för.
Ferðasagan verður rakin í máli og myndum n.k. fimmtudagskvöld 21. október 2010 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og hefst kl. 20:00.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar

Haustferð 2010

Með Fréttir

Laugardaginn 11. sept. sl. var þrettánda haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar farin.  

Á fimmta tug félagsmanna tóku þátt í ferðinni og voru sex ræktunarreitir á Rangárvöllum og Flóa skoðaðir.

Fyrst voru Ingunn Óskarsdóttir og maður hennar heimsótt í gróðurreit þeirra í Flóanum. Þau hafa komið upp aldingarði í skjólleysinu á tæpum tveimur áratugum. Aðaláherslan síðustu árin hefur verið  á fjölbreyttar tegundir reynitrjáa. Þau buðu upp á að smakka af haustuppskeru garðsins. Ánægjulegt var að sjá hvað hægt er að rækta á berangri.

Auðkúla á Hellu var næsta stopp, þar tók á móti hópnum Gerður Jónasdóttir. Sýndi hún kúluhúsið sem hýsir íbúð hennar og stóran gróðurskála með fjölda framandi plöntuegunda sem voru mjög gróskumiklar. Einnig gekk hún með ferðalöngum um garðinn sem kom ótrúlega á óvart þarna við  þjóðveg 1, vegna fjölbreytts úrvals trjáa og runna. Garðurinn er sérstaklega vel hirtur með grasflötum og göngustígum. Um allan garðinn er séð fyrir áningar og hvíldarstöðum.

Næst var Sæmundur Guðmundsson heimsóttur eða Epla-Sæmundur eins og margir kalla hann, enda stendur hann vel undir því viðurnefni. Þarna var sannkallaður aldingarður með nær fullþroskuðum eplum svo að vart var hægt að trúa sínum eigin augum og það á Íslandi. Sæmundur býr yfir miklum fróðleik við ræktun fjölbreyttra yrkja af eplatrjám.

Nú var komið fram yfir hádegi, svo allir tóku vel á nestinu sínu þegar ferðalangarnir höfðu komið sér fyrir í bústað þeirra Ólafs og Guðrúnar í Vindási við Hróarslæk og í garðinum umhverfis bústaðnn. Þau hjón buðu félaginu til hádegisáningar sem þegin var með þökkum af skipuleggjendum ferðarinnar.

Gunnlaugsskógar við Gunnarsholt var næst vitjað undir leiðsögn Sigurðar Sigurkarlssonar. Hann sagði frá  tilurð og sögu skógarins. Upphaf skógarins er að Gunnlaugur Kristinsson landgræðslustjóri sáði birkifræi frá Skaftafelli þar árið 1939. Skógarreitur þessi er ekki auðfundinn, og því óvænt ánægja að fá tækifæri að ganga þarna um.

Við Gunnarsholt var einnig skoðuð Aspartilraun, þar sem mismunandi klónar stóðu hlið við hlið til samanburðar á vaxtarlagi og þroska.

Að lokum voru hjónin Sigurður og Svala heimsótt að Klauf í landi Skammbeinsstaða. Þar hafa þau stundað skógrækt í hálfan annan áratug. Gengið var um skógræktina sem er gríðar mikil og fræðst um ræktunarsöguna. Buðu þau upp á veitingar á verönd bústaðarins enda veðrið eins og best var á kosið og nutu menn góðgerðanna í blíðviðrinu og þökkuðu fyrir sig með góðum söng.

Myndir frá Haustferð 2010

{pgslideshow id=53|width=640|height=480|delay=3000|image=L}