Skip to main content
Flokkur

Fréttir

Yrkjugróðursetningar

Með Fréttir

Yrkjugróðursetningar

Yrkjusjóður var stofnaður árið 1992, en stofnfé sjóðsins var afrakstur sölu bókarinnar Yrkja, sem gefin var út í tilefni sextugsafmælis frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Sjóðurinn hefur eigin stjórn, en Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum og sinnir samskiptum við skólana. Af www.skog.is.

 

Grunnskólar í Garðabæ tóku strax vel við verkefninu og gróðursettu nemendur trjáplöntur (helst birki) í svæði sem skólunum voru úthlutuð til verkefnisins. Samningur var gerður 1991 milli skógræktarfélagsins og Garðabæjar um opið svæði á Hnoðraholti sérstaklega til þessa verkefnis. Áður gróðursettu nemendur í reiti skólanna neðst í Smalaholti sem fljótir voru að fyllast. Skógræktarfélagið hefur séð um að útvega svæði til útplöntunar sem hefur reynst erfitt síðustu árin. Félagið leggur til verkfæri til gróðursetningar. Síðustu ár hafa yrkjugróðursetningar verið í fyrirhugaðan Bæjargarð austan við Hraunsholtstúnið.

Sjá nánar um Yrkjusjóðinn á www.yrkja.is

Landgræðsluskógar

Með Fréttir

Landgræðsluskógar

Verkefnið Landgræðsluskógar er samstarfsverkefni skógræktarfélaganna í landinu ásamt Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þetta landsátak var kynnt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 1989, á þeim fyrsta sem Garðbæingar sátu. Landgræðsluskógar, eins og nafnið bendir til, er skógrækt á rýru landi, sem hentaði mjög vel á rýrum holtum ofan byggðar í Garðabæ. Þá var skógræktarfélagið komið með sitt fyrsta umsjónarsvæði,  Smalaholt, sem passaði í þetta líkan (módel). Ekki síst áttu svæðin að vera opinn öllum almenningi sem var nýjung, en áður voru skógarreitir víggirtir vegna ágangs beitar.

Þó Skógræktarfélag Garðabæjar hafi verið tiltölulega nýfætt, með eitt starfsár að baki, þá voru Garðbæingar fyrstir tilbúnir að hefja landsátakið.

Þann 10. maí 1990 kom saman fjölmenni í Smalaholti, er frú Vigdís Finnbogadóttir, þá forseti, gróðursetti fyrstu plöntuna í Landgræðsluskógum. Þar mættu Ingimundur Sigurpálsson, þá bæjarstjóri, fulltrúar bæjarstjórnar og þingmenn ásamt öðru fólki. Þetta var bjartur og fallegur dagur og hélst góða veðrið fram eftir sumri er skógræktarfélagið tók móti bæjarbúum á öllum aldri til gróðursetninga. Skólarnir fjölmenntu sem og frjáls félagasamtök, svo hið unga félag í bænum mátti vera stolt.

En um 1990 og nokkur ár á eftir var atvinnuleysi og mikil þörf fyrir að skapa störf fyrir ungt fólk í bænum til sumarstarfa. Þar kom skógræktarfélagið sterkt inn sem umsjónaraðili fleiri landgræðsluskógasvæða í Garðabæ, með því að útvega svæði og undirbúa svokallaða landgræðsluskógasamninga sem eru þrí-/fjórhliða samningar, þ.e. Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar,  skógræktarfélagsins og, ef um eignarland utan eigu bæjarins er að ræða, fulltrúa landeigenda.

Árið 2003 var komið að 15 milljónustu landgræðsluskógaplöntunni á landsvísu. Þá komu saman í Smalaholti stjórn Landgræðsluskóga og skógræktarfélagar, ásamt Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra er gróðursetti ilmreyni af þessu tilefni og  var tímamótanna minnst í Smalaholti þar sem fyrstu plöntur í þessu viðamikla verkefni voru gróðursettar.

Samningar um Landgræðsluskóga í lögsögu Garðabæjar eru um Smalaholt, Sandahlíð, Tjarnholt, Hádegisholt og Leirdal.

Nánar um Landgræðsluskógaverkefnið skog.is

Verkefni

Með Fréttir

Þetta eru stór sameiginleg verkefni skógræktarfélaganna í landinu. Hér er reynt að tengja aðkomu Skógræktarfélags Garðabæjar að þeim til fróðleiks. En nánar á www.skog.is Verkefni.

Merki félagssins

Með Fréttir

Merki Skógræktarfélags Garðabæjar var teiknað árið 1999 og er afrakstur samkeppni sem efnt var til á meðal nemenda í grafískri hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands skólaárið 1998-1999. Tilefnið var 10 ára afmæli félagsins haustið 1998. Sextán nemendur unnu að tillögum undir handleiðslu Gísla B. Björnssonar sem er einn reyndasti hönnuður landsins á þessu sviði og kennari í merkjahönnun um langt árabil. Tillaga Björgvins Sigurðssonar sem hlaut fyrstu verðlaun var talin fanga einkar vel einkunnarorð félagsins „Félag fyrir alla fjölskylduna“. Björgvin vann síðan að endanlegri útfærslu og litavali fyrir bréfsefni, fána og til að merkja skógræktarskiltin sem nú prýða skógræktarsvæði félagsins í landi Garðabæjar.

 

 

       merki_skoggb_svart_stafir

 

       merki_skoggb_graent_stafir

 

         merki_skoggb_svart

 

         merki_skoggb_graent

Um félagið

Með Fréttir

Hér er félagið kynnt með núverandi stjórn, lögum félagsins, merki og ágripi af tuttugu ára sögu þess.

Félagsstarf

Með Fréttir

Innra starf skógræktarfélagsins samanstendur af aðalfundi, fræðslufundum, haustferðum og  vinnu- og samverukvöldum félagsmanna.

Boð eru send félagsmönnum um tölvupóst, en nettengdir félagsmenn eru í meirihluta. Til þeirra sem ekki eru nettengdir eru tilkynningarnar bornar út. Tilkynningar munu birtast á vefsíðunni www.skoggb.is

Gróðursetningar

Með Fréttir

Gróðursetningar á svæðin hafa gegnum árin verið framkvæmdar af félagsmönnum, af reitahöfum á svæðunum sem eru skólarnir í bænum, félagsamtök og fjölskyldur. Einnig hafa  hópar ungs fólks í Garðabæ tekið þátt í gróðursetningum á svæðin við sumarvinnu, svokallaðir skógræktarhópar.

 

 

1_smalaholt_nem_hofsstsk_sept_1988

Vinnu- og samverukvöld

Með Fréttir

Frá stofnun félagsins hafa vinnu- og samverukvöld verið  starfrækt þ.e.a.s. yfir tvo áratugi. Þetta er angi af sjálfboðaliðastarfi skógræktarfélagsins. Safnast er saman í aðstöðu félagsins nálægt gatnamótum Vífilsstaðavegar og Elliðavatnsvegar, kl. 20 á þriðjudagskvöldum í maí og júní. Þaðan er farið út á skógræktarsvæðin til gróðursetninga, hlúð að plöntum, eða skoðuð svæðin. Alltaf er sest niður í lokin og spjallað yfir kaffisopa og skráð í dagbókina. Þessar kvöldstundir taka um tvær klst. Félagsmenn geta gengið að þessari starfssemi vísri yfir þessa tvo vormánuði.

Þegar farið er upp í Brynjudal, er lagt af stað úr aðstöðu félagsins kl. 18:00.

 

 

vinnukvold_hofsstadasystur_1995

Haustferðir

Með Fréttir

Haustferðir Skógræktarfélags Garðabæjar hafa sér ekki fyrirmynd frá öðrum systurfélögum. Þetta eru dagsferðir fyrsta eða annan laugardag í september sem hafa mælst mjög vel fyrir og félagsmenn vonast eftir.

Fyrsta ferðin var farin haustið 1998 sem tilbreytni í félagsstarfi á 10 ára afmæli félagsins, skemmst er frá því að segja að haustferðirnar hafa verið fastur liður síðan.

Dagskráin er fjölbreytt, heimsótt skógræktarfélög skoðuð ræktun þeirra og fræðst um þau, vinsælt er að heimsækja gróðrarstöðvar  – fræðast um þær og gera smá innkaup.

Við erum fundvís á ræktun fjölskyldna og einstaklinga og þar leynist fróðleikur sem ræktunarfólk þyrstir í. Þjóðskógarnir hafa verið heimsóttir og starfstöðvar þeirra, einnig er fróðlegt að skoða ræktun hjá skógarbændum.

Skógræktarfélagar koma alltaf sælir og ánægðir heim í Garðabæinn að kvöldi eftir vel heppnaða ferð í góðum félagsskap.

 

 

picture_115

Haustfundir

Með Fréttir

Haustfundir eru jafnframt fræðslufundir. Þeir eru haldnir í október eða nóvember. Undanfarin ár hefur verið boðið uppá ferðasögur með myndum af kynnisferðum, sem Skógræktarfélag Íslands skipuleggur ásamt samstarfsaðilum um kynnisferðir til annarra landa.  Oftast hefur hópur skógræktarfélaga úr Garðabæ sótt þessar ferðir og haldið myndasýningu á sínum myndum.

Haustfundir gefa líka tilefni til að hittast og fjalla um önnur mál sem efst eru á baugi hverju sinni.