Athygli er vakin á því að skógræktarfélagsskírteinin eru núna rafræn. Ef þú ert félagi í Skógræktarfélagi Garðabæjar eða öðru skógræktarfélagi ættirðu að hafa fengið tölvupóst með tengli til að nálgast skírteinið. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Skógræktarfélags Íslands: https://www.skog.is/rafraen-felagsskirteini…/
Skógræktarfélag Garðabæjar býður til
skógardags í Sandahlíð
laugardaginn 26. júní kl. 13 – 15
Gerðu þér glaðan dag!
- Grillaðir sykurpúðar
- Ýmsir útileikir og þrautir
- Náttúruganga/skógarganga
- Búa til skýli úr greinum
- Tálga greinar (gestir þurfa að hafa með sér vasahníf)
- Leiktæki
Allir hjartanlega velkomnir
Viðburðurinn er hluti af Lífi í lundi, röð viðburða í skógum landsins sem Skógræktarfélag Íslands, Skógræktin og Landssamtök skógareigenda standa að.
Mánudaginn 7. júní komu nokkrir félagar Skógræktarfélagsins saman til samveru og vinnustundar í útivistarskógunum í Smalaholti og Sandahlíð í Garðabæ.
Hluti hópins bar áburð á eðalplöntur í Smalaholti í nágrenni við trjásýnistíg, sem liggur um svæði þar sem grunnskólabörn gróðursett birki fyrir allt að 30 árum. Skógræktarfélagið ákvað síðan, í framhaldinu þegar skjól hafði myndast á svæðinu, að auka fjölbreytileikann og setja niður ýmsar eðalplöntur sem alla jafna vaxa ekki í Smalaholti enda jarðvegur frekar rýr. Regluleg áburðargjöf hjálpar til við að plönturnar nái að vaxa og dafna á svæðinu.
Hinn hluti hópsins hélt í Sandahlíð þar sem hann vann að grisjun á svæði þar sem víði og greni var plantað. Víðirinn hefur nú lokið hlutverki sínu sem skjól fyrir grenið og því kominn tími til að grisja enda fengu trjáplönturnar aðstoð frá lúpínu sem sá um áburðargjöf á svæðinu.
Að loknu góðu verki var ljúft að setjast niður við nestisborðin á Sandaflöt og fá sér hressingu.
Skógræktarfélag Garðabæjar stendur fyrir vinnukvöldi mánudaginn 7. júní kl. 19. Komið verður saman í aðstöðu félagsins við Vífilsstaðavatn og haldið þaðan í Smalaholt og Sandahlíð. Í Smalaholti þarf að slá lúpínu frá völdum plöntum við trjásýnistíg og bera á. Í Sandahlíð verður unnið að grisjun og uppkvistun og þarf fólk til að draga greinar frá skógarhöggsmönnunum og koma þeim snyrtilega fyrir.
Að lokinni vinnustundinni verður boðið upp á hressingu í skóginum.
Allir velkomnir.
Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar 2021
fer fram mánudaginn 10. maí kl. 20:00
í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli
DAGSKRÁ
- Venjuleg aðalfundarstörf
- Kosning fundarstjóra
- Skýrsla stjórnar 2020
- Reikningar félagsins 2020
- Ákvörðun um félagsgjöld 2021
Stjórnarkjör:
- Kosning formanns
- Kosning þriggja aðalmanna
- Kosning tveggja varamanna
- Kosning aðal skoðunarmanns reikninga
Önnur mál
Lífgað upp á skóginn – Guðríður Helgadóttir
Gurrý heldur fræðsluerindi þar sem hún fjallar um trjá- og runnategundir sem lífga upp á skóginn.
Allir hjartanlega velkomnir
Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar
Metaðsókn var í jólaskóg í Smalaholti laugardaginn 12. desember síðastliðinn en þetta er í 16. skipti sem Skógræktarfélag Garðabæjar býður upp á árlegan jólaskóg. Fjölskyldur nutu útivistar í skóginum í blíðaskaparveðri við val á hinu eina sanna jólatré. Venjan hefur verið að bjóða upp á kakó og piparkökur en því var sleppt að þessu sinni vegna Covid.
Sumir dressuðu sig upp fyrir jólatrjáahöggið.
Jólaskógur á tímum covid-19.
Ýmsum aðferðum var beitt við að koma jólatrjánum út úr skóginum.
Umhverfishópar ungmenna í átaksverkefni á vegum Garðabæjar unnu að því í sumar að bæta við stígakerfið í útivistarskóginum í Sandahlíð og þar með urðu til tvær nýjar hringleiðir. Stígarnir eru lagðir kurli sem ungmennin keyrðu í hjólbörum.
Skógurinn í Sandahlíð er vinsæll meðal almennings jafnt Garðbæinga sem íbúa úr nágrannasveitafélögum. Lenging stíganna sem nemur um 800 m mun því nýtast útivistarafólki vel hvort heldur í skjóli trjánna eftir aspargöngum eða eftir brún Sandahlíðar með glæsilegu útsýni, yfir byggðina í kringum Garðabæ og til fjalla. Ekki tókst að ljúka við brúnastíginn að fullu en það á eftir að keyra kurli í stíginn á um 30-40 m kafla, en sá stígur verður rúmlega 500 m langur þegar honum er lokið.
Skógræktarfélag Garðabæjar lét skipuleggja Sandahlíð 1993 og í framhaldinu var lagður útivistarstígur eftir endilangri Sandahlíð og ræktunarreitum úthlutað innst á svæðinu með aðgengi m.a. frá Kópavogi við Guðmundarlund. 1994 hófst gróðursetning í Sandahlíð sem reitarhafar unnu sem og félagar í Skógræktarfélaginu og ungmenni á vegum bæjarins. Félagið útbjó áningarstað á Sandaflöt 1995 með leiktækjum, grilli og útiborðum og lagði veg inn á svæðið og bílaplan sem stækkað hefur verið nokkrum sinnum. Í dag er Sandahlíð fallegur útivistarskógur og er svæðið að mestu fullplantað nema þar sem lúpínan er sem þéttust.
Nýlegar athugasemdir