Upphaf Skógræktarfélagsins
Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað 24. nóvember 1988 af áhugasömum bæjarbúum um ræktun og útivist. Félagið er eitt aðildarfélaga í Skógræktarfélagi Íslands. Smalaholtið, norðan Vífilsstaðavatns var fyrsta svæðið sem félagið fékk til skógræktar en holtið var þá berangur með stórum rofabörðum sem erfitt er að sjá fyrir sér á göngu um svæðið í dag. Í þá daga gekk sauðfé um holtið vor og haust, úr fjárhúsaborg í Kópavogi, þar sem kirkjugarðurinn er nú. Skógræktarfélagar þurftu því að stugga við fénu sem beit ofan af smáplöntunum. Árið 1994 fékk félagið Sandahlíð ofan Kjóavalla til yfirráða til skógræktar og þar þurfti einnig að reka sauðfé sem var þar á beit frá Vatnsendabýlinu. Sandahlíðin var þá illa farin, gróður víða rofinn með djúpum vatnsfarvegum niður hlíðina og áberandi rofabörð. Í dag eru þessi svæði vaxin skógi með göngustígum, bekkjum, grillaðstöðu og leiktækjum, öllum til yndisauka.
Gróðursetning í Smalaholti í maí 1988.
Skógræktarfélagið fékk mikinn meðbyr bæjarbúa strax í upphafi, þar sem flest félagasamtök í bænum þáðu að taka land í fóstur, hittast í Smalaholti og setja niður tré í reitina sína. Félögin heimsækja reglulega skógarreitina og t.d. gróðursettu Kvenfélagskonur í sumar trjáplöntur í reitinn sinn til að kolefnisjafna ferð félagsins til Edinborgar. Einnig hafa margir einstaklingar og fjölskyldur tekið svæði í fóstur.
Frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetur fyrstu plöntuna í Smalaholti.
Landsátak í Landgræðsluskógum hófst 1990 í Smalaholti, með þátttöku fjölda fólks ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur forseta sem gróðursettu fyrstu birkiplönturnar í átakinu á landsvísu. Með þátttöku Skógræktarfélagsins í þessu merka verkefni fengust úthlutaðar skógarplöntur til gróðursetningar sem félagið meðal annars úthlutaði til félaga sem voru með reiti.
Göngustígar í Smalaholti og Sandahlíð
Útivist i bæjarlandinu hefur aukist með árunum og hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir lagningu göngustíga í Smalaholti og Sandahlíð til að auðvelda íbúum að njóta útivistar í fjölbreyttu og fallegu umhverfi. Þá hefur verið komið fyrir bekkjum meðfram stígum og veglegir áningarstaðir reistir í Smalaholti og í Sandahlíð með grillaðstöðu og leiktækjum. Meðfram stíg í vestanverðu Smalaholti hefur verið plantað fjölbreyttum trjám sem merkt hafa verið með nöfnum þeirra til fróðleiks og fræðslu. Árið 2013 gaf félagið út útivistarkort með yfirliti yfir stíga á skógræktarsvæðunum. Kortið er aðgengilegt við aðkomu í Smalaholt og Sandahlíð ásamt skilti með korti af svæðunum og á www.skoggb.is. Einnig er hægt að finna kort af svæðunum á kortavef Garðabæjar.
Um skógræktarsvæðin í Tjarnholtum og í Hádegisholti hafa ekki enn verið lagðir útivistar-stígar um svæðin, en útskot fyrir bíla er komið við Elliðavatnsveg neðan Hádegisholts.
Félagsstarf
Félagar í Skógræktarfélagi Garðabæjar í jólatrjáareit félagsins í Brynjudal í Hvalfirði.
Skógræktarfélag Garðabæjar er félag fyrir alla fjölskylduna með um 320 félagsmenn. Fyrstu árin komu félagsmenn reglulega saman á vinnu- og samverukvöldum á sumrin til að planta og hlúa að gróðri, en nú eru svæðin nær full plöntuð. Aðal vinnan í dag er við umhirðu á svæðunum s.s. slátt á lúpínu meðfram stígum, grisja skóginn, bera ofan í stíga o.fl. sem er að mestu unnið af vertökum.
Í Brynjudal í Hvalfirði hefur félagið fengið svæði til umráða þar sem félagar hafa farið árlega til þess að planta trjám til notkunar sem jólatré í framtíðinni. Einnig eru eldri tré snyrt og hlúð að þeim. Nú þegar hafa verið höggvin jólatré úr þessum lundi.
Síðastliðið vor tók skógræktarfélagið þátt í verkefninu „Líf í lundi“ sem er fjölskyldudagur í skógum landsins. Þá var plantað í svokallaðan Fullveldislund í Sandahlíð og tóku félagsmenn og gestir á öllum aldri þátt í því.
Í landi Vífilsstaða hefur félagið aðstöðu þar sem plöntur eru í uppeldi áður en þeim er plantað út á skógræktarsvæðin.
Skógræktarfélagið hefur tvisvar með nokkurra ára millibili látið gera úttekt á fuglalífi á skógræktarsvæðunum þar sem fram kemur þéttleiki fugla og breytingar á fuglalífi á tímabilinu, sjá skýrslu á www.skoggb.is
Aðild að Skógræktarfélagi Garðabæjar er öllum áhugasömum opin hvort sem viðkomandi ræktar skóg eða bara vill vera þátttakandi í góðum félagsskap.
Haustferðir
Úr haustferð Skógræktarfélagsins.
Félagsmönnum hefur verið boðið í haustferðir félagsins undanfarin 20 ár. Um er að ræða dagsferðir þar sem ræktendur utan og innan höfuðborgarsvæðisins eru heimsóttir og fleira áhugavert skoðað. Þessar ferðir hafa verið vinsælar og víða hefur verið komið við.
Jólaskógur í heimabyggð
Opinn jólaskógur er fastur liður í starfsemi félagsins. Þá er tekið á móti fjölskyldum í skóginum þar sem þær geta valið sér jólatré og sagað sjálf. Einnig er boðið upp á heitt kakó og piparkökur í jólastemningu.
Yrkjugróðursetningar
Grunnskólanemendur í Garðabæ hafa reglulega komið á svæðin og gróðursett birkiplöntur sem þeir fá úthlutað úr Yrkjusjóði sem stofnaður var 1990 til heiðurs frú Vigdísi Finnbogadóttur á sextugsafmæli hennar. Enda vildi hún fá unga fólkið til þátttöku að klæða landið skógi sem sannarlega hefur tekist. Grunnskólar bæjarins hafa verið þátttakendur Yrkjuverkefnisins frá upphafi. Haustið 2017 byrjuðu grunnskólanemendur að gróðursetja birkiplöntur á Bessastaðanesi.
Fræðslu og myndakvöld
Félagið hefur undanfarin ár staðið fyrir myndakvöldum sem að þessu sinni verður haldið mánudaginn 26. nóvember í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli og hefst kl. 20:00. Þar verður sögð ferðasaga í máli og myndum frá ferð nokkurra félagsmanna með Skógræktarfélagi Íslands til Spánar í október, m.a. í þjóðgarð í Pýrenafjöllum.
Áhugafólk um skógrækt og náttúru hefur gagn og gaman af skoðunarferðum erlendis. Skógræktarfélag Íslands skipuleggur árlega slíkar ferðir fyrir skógræktarfólk á landsvísu, um náttúrusvæði, þjóðskóga og jafnframt er fræðst um menningu viðkomandi lands. Fyrir þá sem hafa farið í slíkar ferðir er gaman að rifja upp ferðirnar og ekki síður er áhugavert fyrir alla að fræðast um skógrækt og menningu annarra landa.
Aðalfundur félagsins er haldinn að vori og á fundinn hafa verið fengnir fræðimenn sem hafa frætt félagsmenn um ýmislegt varðandi skipulagsmál, skógrækt og garðrækt.
Nánari upplýsingar um Skógræktarfélagið á www.skoggb.is
Erla Bil Bjarnardóttir, formaður
Nýlegar athugasemdir