Starfsskýrsla Skógræktarfélags Garðabæjar 2017-2018 er nú komin út og er hægt að nálgast hana á pdf-formi á þessari slóð.
Starfsskýrsla Skógræktarfélags Garðabæjar 2017-2018 er nú komin út og er hægt að nálgast hana á pdf-formi á þessari slóð.
Haustferðir Skógræktarfélags Garðabæjar á undanförnum árum hafa heppnast ágætlega og mælst vel fyrir.
Félagsmenn hafa verið fræddir um margvíslegt varðandi ræktun skóga, tegundaval og ræktunarsögu.
En þessar ferðir eru ekki síst skemmtiferðir í góðum félagsskap.
Á þessu hausti verður farið um uppsveitir Árnessýslu þar sem heimsóttir verða áhugaverðir staðir s.s.
þjóðskógurinn í Haukadal, skógarbændur í Bláskógarbyggð og sumarhúsaeigendur í Þjórsárdal.
Skógræktarfélagið leggur til rútu í ferðina en þátttakendum er bent á að taka með sér nesti til dagsferðar
og klæðnað eftir veðri.
Brottför laugardag 8. sept. brottför kl: 9.00 frá bílaplani ofan Garðatorgs.
Heimkoma áætluð um kl: 19.00.
Þeir, sem hyggjast taka þátt í þessari ferð þurfa að tilkynna það sem fyrst eigi síðar en fimmtudagskvöldið
6. sept. nk. til:
Erlu Biljar Bjarnardóttur, formanns
síma: 680 8585
netfang: bil@internet.is
Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar, kt. 490389-1139, óskar eftir samstarfi við Garðabæ um að gert
verði faglegt mat á verðgildi skógarins, stíga og áningarstaða á umsjónarsvæði Skógræktarfélagsins
í Smalaholti í landi Vífilsstaða.
Félagið hefur ræktað þar skóg og byggt upp útivistarsvæði frá 1988 með gerð útivistarstíga, bekkja
meðfram stígum og áningastaðar í Furulundi með grillaðstöðu og borðum. Nú síðari ár hefur
verið unnið að grisjun skógarins svo hann sé alltaf sem best aðgengilegur til útivistar. Einnig
með því að skapa jólastemningu með opnum jólaskógi í desember.
Smalaholtið er skógræktarfélögum í Garðabæ mjög kært, svæðið var fengið til umsjónar til
skógræktar af stjórn Ríkisspítalanna árið 1988. Sem var forsenda þess að stofna skógræktarfélag
í bænum þann 24. október 1988, félagið er því 30 ára í ár.
Við upphaf stofnunar félagsins myndaðist góð samstaða um Smalaholtið, þannig að flest félagasamtök
í Garðabæ auk grunnskólanna þáðu boð og fengu úthlutað reitum um 1 ha í Smalaholti til að rækta
sér sinn yndisskóg sem hefur gengið eftir með fallegum útivistarskógi.
Frá upphafi hefur Skógræktarfélag Íslands verið aðili að skógrækt í Smalaholti, þar má nefnda
að landsátakið um Landgræðsluskóga hófst á Smalaholti 10. maí 1990 þegar frú Vigdís Finnbogadóttir
forseti gróðursetti fyrstu plönturnar í örfoka landið ásamt þingmönnum, bæjarfulltrúum og almenningi.
Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar telur rétt að fari fram mat á Smalaholti sem hugmyndir erum
um að fari undir golfvöll.
Leitað hefur verið upplýsinga um framkvæmd á slíku mati sem gerð hafa verið t.d. á skógrækt
ofan Neskaupsstaðar, Eskifjarðar og Ísafjarðar vegna snjóflóða- og aurvarnagarða.
Lagt er til að farin verði sú leið sem mörkuð var með samkomulagi frá 8. júní 2015 milli
Ofanflóðasjóðs og Skógræktarfélags Íslands. Þar voru markaðar skýrar reglur um mat og verðmæti
trjágróðurs auk þess sem getið er um hvernig framkvæmd er háttað við gerð þess. Þar er horft til
þess að tveir til þess bærir aðilar vinni að gerð matsins. Stjórn félagsins leggur til að horft verið til
reynslu sambærilegs verkefnis og um er að ræða í Smalaholti. Leitað verði eftir fagþekkingu þeirra
aðila sem hafa mesta reynslu hér á landi við gerð slíks mats.
Það er betra að meta skóginn á fæti en fallinn.
Virðingarfyllst f.h. Skógræktarfélags Garðabæjar
Erla Bil Bjarnardóttir, formaður
Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá í skógum landsins laugardaginn 23. júní undir yfirskriftinni Líf í lundi. Skógræktarfélag Garðabæjar í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands bauð uppá gróðursetningu Fullveldislundar í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands í Sandahlíð.
Fjölskyldur tóku þátt í gróðursetningu og þáðu veitingar s.s. pylsur af grillinu og ketilkaffi.
Börnum var boðið á hestbak af reiðskóla á félagssvæði hestamannafélagsins Spretts á Kjóavöllum sem liggur að skógræktar- og útivistarsvæðinu í Sandahlíð. Þar eru einnig leiktæki sem börnin sóttu í enda góð aðstaða að koma saman í skóginum í Sandahlíð.
Líf í lundi er samstarfsverkefni ýmissa skógaraðila á Íslandi og er markmið átaksins að fá almenning til að heimsækja skóga landsins, stunda hreyfingu og njóta saman útiveru.
Laugardaginn 23. júní kl. 14-16 verður aldarafmæli fullveldis Íslands minnst með gróðursetningu Fullveldislundar á skógræktarsvæði Skógræktarfélags Garðabæjar í Sandahlíð. Létt og skemmtileg gróðursetning fyrir alla og mun Frú Vigdís Finnbogadóttir taka þátt í henni.
Verkfæri á staðnum og aðstoðarmenn og skógfræðingar leiðbeina við gróðursetningu.
Veitingar í boði fyrir gesti og Hestamannafélagið Sprettur býður yngri kynslóðinni á hestbak. Leiktæki fyrir börn. Næg bílastæði á svæðinu.
Hjartanlega velkomin í skóginn milli kl. 14:00 – 16:00 en Sandahlíðin er vaxin fallegum útivistarskógi, sem gaman að njóta.
Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins, sem skógaraðilar á Íslandi standa sameiginlega að. Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á https://www.skogargatt.is/ og www.skoggb.is
Skógræktarfélag Garðabæjar
Skógræktarfélag Íslands
Nemendur tveggja grunnskóla í bænum tóku þátt í gróðursetningu yrkjuplantna í dag 5. júní.
Allir nemendur Barnaskóla Hjallastefnunnar á Vífilsstöðum gróðursettu birkiplöntur í móann austan við skólann.
Nemendur 4. bekkja Flataskóla gróðursettu birkiplöntur í Bæjargarðinn í Garðahrauni.
Aðrir skólar í bænum gera ráð fyrir þátttöku í yrkjugróðursetningu nk. haust í byrjun skólaárs.
Grunnskólar í Garðabæ hafa ævinlega verið virkir þátttakendur í yrkjuverkefninu.
Það skein sól, loksins eftir langvarandi rigningar, þegar 18 kvenfélagskonur komu saman í Smalaholti á dögunum. Þær gróðursettu 83 trjáplöntur í reit félagsins en tilgangurinn var að hittast og kolefnisjafna flugferð félagsins.
Vorferð félagsins var til Edinborgar daganna 4.–7. maí og kom upp sú hugmynd að kolefnisjafna flugið með því að gróðursetja í kvenfélagsreitinn.
Konum var boðið uppá kakó og nýbökuð horn að lokinni gróðursetningu.
Skógarnefnd Kvenfélags Garðabæjar
Fuglategundum fjölgar í skóginum
Talsverðar breytingar hafa orðið á fuglalífi í Smalaholti og í Sandahlíð á undanförnum 14 árum samkvæmt niðurstöðum nýrlegrar rannsóknar fuglafræðinganna Jóhanns Óla Hilmarssonar og Ólafs Einarssonar en þeir stóðu að sambærilegri rannsókn árið 2003. Fleiri tegundir voru skráðar nú og töluverðar breytingar urðu á þéttleika sumra tegunda. Breytingarnar eru eðlilegar miðað við vaxandi skóg- og uppgræðslu á svæðinu í kjölfar beitarfriðunar. Spói, stelkur, svartþröstur og auðnutittlingur eru tegundir sem voru taldar nú en komust ekki á blað árið 2003. Þá hefur skógarþröstum fjölgað verulega en þúfutittlingi og heiðlóu fækkað að sama skapi.
Skýrslan heitir: Mófuglar í landi Skógræktarfélags Garðabæjar á Smalaholti og í Sandahlíð sumarið 2017 og er hægt að nálgast hana hér að neðan.
Aðalfundur Skógræktarfélags Garðabæjar verður haldinn mánudaginn 23. apríl 2018 og hefst kl. 20:00.
Fundarstaður: Safnaðarheimilið Kirkjuhvoll við Kirkjulund
DAGSKRÁ:
1. Venjuleg aðalfundarstörf:
1.1. Kjör fundarstjóra
1.2. Skýrsla stjórnar 2017
1.3. Reikningar félagsins 2017
1.4. Ákvörðun um félagsgjöld 2018
1.5. Stjórnarkjör. Kjósa skal þrjá aðalmenn og þrjá til vara, auk skoðunarmanns reikninga og einn til vara.
2. Önnur mál
3. Kaffiveitingar í boði félagsins
4. Gestir fundarins Þráinn Hauksson frá Landslagi ehf. og Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri Garðabæjar, fjalla um Vífilsstaðaland. Nú fer fram skipulagsvinna eftir samkeppni að rammaskipulagi á landi Vífilsstaða sem Garðabær keypti á síðasta ári. Einnig kynna þeir tillögu að hönnun Bæjargarðs í jaðri Garðahrauns.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar
Stjórn Skógræktarfélags Garðabæjar hefur látið vinna tillögu að skógarskála fyrir félagið sem yrði staðsettur við aðkomuna að Smalaholti og var hún unnin af Sigurði Einarssyni hjá Batteríi arkitektum. Í skálanum er gert ráð fyrir aðstöðu með geymslurými fyrir verkfæri, salerni og á baklóð yrði afgirt svæði fyrir plöntugeymslu. Hugmynd að skógarskála þróaðist eftir að Garðabær eignaðist Vífilsstaðaland á árinu 2017, því ætla má að núverandi aðstaða félagsins þurfi að víkja fyrir nýrri íbúðabyggð.
Formaður Skógræktarfélagsins kynnti hugmyndina að skógarskála í Smalaholti fyrir Gunnari Einarssyni bæjarstjóra þann 7. nóv. 2017. Þá var í gangi hugmyndasamkeppni arkitekta á vegum Garðabæjar að rammaskipulagi Vífilsstaðalands með framtíðarsýn í huga. Úrslit samkeppninnar var kynnt 21. desember þar sem í fyrsta sæti var tillaga arkitektastofunnar Batterísins, landslagsarkitektastofunnar Landslags og verkfræðistofunnar Eflu. Í framhaldi fer fram vinnsla deiliskipulags. Tillagan að aðstöðu félagsins við aðkomuna að Smalaholti með skógarskála var send til bæjaryfirvalda og skipulagsyfirvalda þann 20. febrúar síðastliðinn.
Við undirbúning arkitektasamkeppninnar gafst hagsmunaaðilum tækifæri til að senda dómnefnd tillögur. Einnig var haldinn íbúafundur á vegum Garðabæjar þar sem óskað var eftir tillögum að nýtingu Vífilsstaðalands. Skógræktarfélagið er einn hagsmunaaðila Vífilsstaðalands vegna skógræktar- og útivistarsvæðis í Smalaholti, auk Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) vegna golfvallarins í Vetrarmýri og Hestamannafélagsins Spretts vegna reiðleiða.
Það hefur komið fram á íbúafundi og í blaðagreinum að GKG hyggst krefjast stækkunar golfvallarins inn fyrir mörk skógræktarsvæðisins í Smalaholti á móti skerðingu á golfvellinum vestast í Vetrarmýri. Það á eftir að koma í ljós við frekari skipulagsvinnu af svæðinu hvort, og þá hversu mikil sú skerðing verður.
Mikilvægt er að svæðið við aðkomuna að Smalaholti við Elliðavatnsveg verði ekki skert en þar hefur félagið áhuga á að koma fyrir skógarskálanum og þar er andlitið að skógræktar- og útivistarsvæðinu í Smalaholti sem er hjarta félagsins enda fyrsta svæðið sem fengið var til skógræktar en Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað í framhaldinu 24. nóvember 1988 og er því þrítugt á þessu ári.
Svona gæti skáli Skógræktarfélagsins í Smalaholti litið út.
Skálinn yrði staðsettur við bílastæðið við Elliðavatnsveg.
Nýlegar athugasemdir