Ágrip af sögu
Ágrip af sögu Skógræktarfélags Garðabæjar 1988-2019
Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað 24. nóvember 1988, af um 50 áhugasömum Garðbæingum um ræktun og útivist. Félagið er eitt aðildarfélaga í Skógræktarfélagi Íslands.
Forsaga að stofnun félagsins
Ólafur Vilhjálmsson á Bólstað, þáverandi formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir garðyrkjustjóri unnu að því að útvega landsvæði til skógræktar í Garðabæ, en það var forsenda að stofnun félagsins. Áður, árið 1980 á ári „trésins“ hafði Jón Gauti Jónsson, þáverandi bæjarstjóri óskað eftir við stjórn Skógræktarfélag Hafnarfjarðar að við nafnið yrði bætt „og Garðabæjar“. Það fyrirkomulag var þar til Skógræktarfélag Garðabæjar var stofnað, með tilkomu fyrsta svæðis félagsins, Smalaholts, sem fengið úr landi Vífilsstaða. Ólafur Vilhjálmsson taldi að áhugi Garðbæinga yrði ekki vakinn, né þátttaka í skógrækt, fyrr en svæði í bæjarlandinu kæmi til.
Félagsstarfið
Stofnun Skógræktarfélagsins var vel tekið í Garðabæ. Strax í upphafi var félagasamtökum, skólum og fjölskyldum boðið til þátttöku með því að úthluta þeim ræktunarreit, um 1 hektara að stærð í Smalaholti.
Þó Skógræktarfélag Garðabæjar sé ungt að árum, hefur félagsstarf þess verið öflugt, enda félag fyrir alla fjölskylduna, með yfir þrjú hundruð félaga. Félagið var öflugt í sjálfboðastarfi á árum áður með vinnu- og samverukvöldum á svæðunum á þriðjudagskvöldum í maí – júní. Síðustu árin hafa félagsmenn ekki gefið sér tíma til þessa, svo samverukvöld eru nú færri. Félagsstarf er öflugt, einn til tveir félagsfundir að vetri með fræðslu um skógrækt, útivist og ferðalög. Haustferð félagsins, sem hefur verið helgardagsferð í boði félagsins, er mjög vinsæl til að heimsækja og skoða ræktun annarra.
Upphaf landgræðsluskóga
Félagið var í fararbroddi er átak um Landgræðsluskóga www.skog.is hófst 10. maí 1990 á Smalaholti með þátttöku frú Vígdísar Finnbogadóttur forseta, þingmanna, bæjarfulltrúa og fjölda fólks. Átakið var svo öflugt þetta sumar að um 70 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar, eða um tíu plöntur á hvern Garðabæing. Landgræðsluskógaverkefnið stendur enn. Það byggist á því að skógræktarfélögum í landinu er úthlutað trjáplöntum á svæðin sem tekin eru út af skógfræðingum Skógræktarfélags Íslands (SÍ). Gerðir eru samningar um svæðin milli skógræktarfélags, landeiganda, bæjarfélags og SÍ. Landgræðsluskógaverkefnið hefur verið styrkt af Ríkissjóði.
Þegar kom að gróðursetja 15 miljónustu plöntu Landgræðsluskóga 2005, var það einnig gert í Smalaholti af Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra, Huldu Valtýsdóttur formanni SÍ o.fl.
Aðstaða félagsins
Aðstaða fyrir starfsemina var strax nauðsynleg til að geta tekið á móti plöntum sem félaginu var úthlutað úr Landgræðsluskógum og Yrkju. Þessi aðstaða er austan við Vífilsstaði, með aðgangi að vatni til vökvunar á plöntum sem bíða þess að fara á svæðin, einnig eigin ræktunar sem hefur verið í umsjón Barböru Stanzeit frá upphafi. Þessi staðsetning mun breytast við endurskipulagningu Vífilsstaðalands, sem er í vinnslu eftir kaup Garðabæjar á Vífilsstaðalandi 2017. Þar eru tveir verkfæraskúrar með áhöldum. Félagið á plöntu- og gróðursetningastafi sem voru keyptir í upphafi Landgræðsluskógaátaksins. Þeir voru endurgerðir 2018 enda farnir að láta á sjá eftir 30 ára notkun. Þá á félagið nokkrar geispur og vélorf. Einnig á félagið tvær pökkunartrektir í tveimur stærðum fyrir jólatrjáasöluna.
Skógræktarsvæðin
Stjórn félagsins hefur unnið að öflun landsvæða til skógræktar. Umsjónarsvæði félagins eru í lok árs 2018, á 30 ára afmæli félagsins eftirfarandi; Smalaholt, Hnoðraholt, Sandahlíð, Hádegisholt, í Tjarnholtum og í Brynjudal, sjá nánar um svæðin á heimasíðu félagsins.
Leirdalur undir Lönguhlíð var um tíma í umsjá félagsins en var tekinn síðar undir þjóðlendu og er nú skilgreint svæði innan marka Hafnarfjarðar og hefur því ekki nýst félaginu til skógræktar þó uppgræðsla hafi þar verið komin vel á veg.
Jólatrjáasala
Sala jólatrjáa hófst árið 2005 í jólatrjáaræktunarreitnum í aðstöðu félagsins í landi Vífilsstaða. Síðan þá hefur félagið haldið opinn jólaskóg með góðri þátttöku bæjarbúa og annarra gesta, oftast í Smalaholti en einnig í Sandahlíð. Gestum gefst tækifæri til að koma á skógræktarsvæðin einn laugardag fyrir jól og velja sér tré og fella. Það myndast góð stemmning í skóginum þegar fjölskyldan kemur með tréð sitt til pökkunar og þiggur heitt kakó og piparkökur. Þetta er þríþætt verkefni; að grisja skóginn, afla fjár til starfseminnar og styrkja félagsböndin.
Skipulag og hönnun svæðanna
Skipulagsmál hafa frá upphafi félagsins verið mikilvægur þáttur í starfseminni.
Skógræktarskipulag af Sandahlíð lét Skógræktarfélagið gera 1993, sem var fyrsta sinnar tegundar á vegum skógræktarfélags á landsvísu, gert af Arnóri Snorrasyni skógfræðingi.
Á tuttugu ára afmæli félagsins 2008 var haldið málþing um skógrækt og útivist. Erindi um skógrækt, útivist, fugla, fornminjar voru flutt og kynnt nýtt útivistarskipulag fyrir Smalaholt af Hornsteinum ehf. sem félagið lét gera, þar sem gert var ráð fyrir göngustígum og áningastöðum.
Garðabær keypti Vífilsstaðaland 2017 og í framhaldinu hófst vinna við skipulag á landinu. Aðalskipulagsbreyting var gerð vegna Vífilsstaðalands árið 2018 og í framhaldinu lagði GKG fram hugmynd um að útvíkka golfvöllinn upp í skógræktarsvæðið í Smalaholti. Stjórn Skógræktarfélagsins gerði athugasemd við þessar hugmyndir. Í desember 2018 úthlutaði bærinn 10.000 m² lóð til ríkisins fyrir meðferðarheimili á Smalaholti, staðsetning er í vinnslu.
Stjórn Skógræktarfélagsins þarf að halda áfram að vera vakandi varðandi skipulagsbreytingar, til að verja skógræktarsvæðin sem eru mikilvæg almenningi og fuglalífi. Þeirri vöktun lýkur aldrei.
Útivistarstígar og aðstaða á svæðunum
Í upphafi var lagður útivistarstígur eftir endilangri Sandahlíð og ræktunarreitum úthlutað innst á svæðinu með aðgengi m.a. frá Kópavogi.
Félagið útbjó áningarstað á Sandaflöt 1995 samkvæmt tillögu Landslagi ehf. með leiktækjum, grilli og útiborðum. Félagið lagði veg inn á svæðið og bílaplan sem stækkað hefur verið nokkrum sinnum.
Lagning útivistarstíga í Smalaholti hófst 2009 með svokölluðum Brúnarstíg, þaðan er víðsýnt af efri brún Smalaholts. Útivistarstígar í Smalaholti liðast nú um skóginn, orðnir yfir 3 km að lengd. Stígalagning hefur enn ekki farið fram á öðrum umsjónarsvæðum félagsins, enda dýrar framkvæmdir sem þarfnast skipulagsferlis. Viðhald stíganna er kostnaðarsamt bæði er varðar reglulega yfirlagningu/ofaníburð og slátt á lúpínu meðfram stígum. Góð aðstaða er á svæðunum til útivistar.
Hringsjá var sett upp á Smalaholti 2014 af Garðabæ og Kópavogi enda á bæjarmörkum. Verkið var unnið að frumkvæði og aðkomu Skógræktarfélagsins t.d. örnefnarýni Sigurðar Björnssonar. Hringsjáin eða útsýnisskífan gefur Smalaholti meira gildi sem útivistarsvæðis.
Áningarsvæði eru bæði í Smalaholti og Sandahlíð með borðum og grillaðstöðu. Útibekkjum hefur fjölgað með árunum meðfram stígum, enda skógræktarsvæðin vinsæl til útivistar.
Græni stígurinn sem fyrirhugaður er á höfuðborgarsvæðinu mun tengja skógræktarsvæðin ofan byggðar sjá skog.is.
Fræðsluskilti á svæðunum eru í stöðugri þróun, sem eru hin hefðbundnu grænu Landgræðsluskógaskilti frá SÍ. Við aðkomu Smalaholts og Sandahlíðar eru kortaskilti með boxi fyrir útivistarkort í vasabroti, útgefin 2013.
Fuglatalning
Félagið hefur látið gera fuglatalningar á skógræktarsvæðunum Smalaholti og Sandahlíð árin 2003 og endurtekið 2017, sjá skýrslur á www.skoggb.is
Samstarfssamningur við Garðabæ
Samstarfssamningur var undirritaður á 20 ára afmælisþingi Skógræktarfélagsins árið 2008 af Gunnari Einarssyni bæjarstjóra. Þetta var fyrsti samstarfsamningur Garðabæjar við félagið, sem hefur verið endurskoðaður og samþykkur á aðalfundum 2013 og 2017. Honum fylgir þjónustusamningur um umsjón með skógræktarsvæðum í lögsagnarumdæmi Garðabæjar. Samningurinn gerir félaginu mögulegt að ráða umsjónarmann og/eða semja við verktaka um verkefni á skógræktarsvæðunum.
Umhirða og grisjun
Umsjónarmenn hafa verið ráðnir til félagsins til sumarstarfa vegna starfsemi á svæðunum frá 2009 með verktakasamningum. Áður hafði Guðni Guðjónsson hlúð að plöntum og gefið þeim áburð í mörg sumur meðan heilsan leyfði. Starfsemin var fjölbreytt milli ára s.s. lagning útivistarstíga þegar bauðst mannafli frá bænum, vegna gróðurgetningar og umhirðu á svæðum félagsins.
Grisjun hefur farið fram undanfarin ár í ört vaxandi skógi í Smalaholti og einnig í Sandahlíð. Grisjun í 30 ára skógi þarf að fara fram af fagmennsku, þær framkvæmdir hafa verið kostnaðarsamar og verða til framtíðar með vaxandi skógi.
Sumarstörf ungmenna
Skógræktarfélagið hefur stutt Garðabæ við öflun verkefna er skipuleggja hefur þurft verkefni fyrir ungmenni í sumarvinnu, þegar bæjarfélagið útvegar fjölda ungra Garðbæinga sumarstörf við landgræðslu, skógrækt og stígagerð. Svæði sem ungmennin gróðursettu í voru t.d. Tjarnholtin, Hádegisholt o.fl. Það samstarf er beggja hagur. Þegar það vinnuframlag var í boði, var nauðsynlegt að fulltrúi Skógræktarfélagsins væri til staðar og tæki á móti ungmennunum og leiðbeindi við verkefnin.
Yrkjuverkefnið
Grunnskólar í Garðabæ hafa verið öflugir þátttakendur í Yrkjuverkefninu sem frú Vigdís Finnbogadóttir stofnaði með markmiði ræktun lýðs og lands. Yrkjusjóður úthlutar plöntum til skólanna. Allt frá upphafi 1992 hefur Skógræktarfélagið skipulagt gróðursetningar nemenda, með útvegun svæða og leiðbeiningum við gróðursetningar. Yrkjugróðursetningar hófust í Smalaholti, á Hnoðraholti og í Sandahlíð. Síðari ár hefur reynst erfiðara að fá svæði og hafa börnin gróðursett í hluta Bæjargarðsins í Garðahrauni og á Bessastaðanesi.
Aldamótaskógar
Í tilefni þúsaldamóta árið 2000 og 70 ára afmæla Skógræktarfélags Íslands var stofnað til svokallaðra Aldamótaskóga á fimm svæðum á landinu, einu í hverjum landshluta. Aldamótaárið 2000 gróðursettu sjálfboðaliðar og starfsmenn skógræktarfélaga liðlega 280 þúsundir skógarplantna, eina fyrir hvern Íslending, en Kaupþing lagði til plöntur og áburð. Skógræktarfélag Garðabæjar fékk úthluta reit 6 að Gaddstöðum við Hellu. Góð þátttaka félagsfólks á upphafsdegi verkefnisins gróðursett ein planta fyrir hvern Garðabæing. Fjöldi skógræktarfélaga af Suðvestur og Suðurhluta landsins mættu til gróðursetningarinnar. Í framhaldi heimsóttu nokkrir félagsmenn reitinn bættu í og gáfu áburð. Reiturinn er auðfundin sunnan í löngu rofabarði sem er nú skógi vaxið.
Heiðursfélagi og heiðranir
Á aðalfundi félagsins 18. apríl 1999 var Sigríður Gísladóttir (1921-2012) á Hofsstöðum kjörin heiðursfélagi Skógræktarfélags Garðabæjar. Hún tók þátt í undirbúningi félagsins og var virkur félagi meðan heilsan leyfði. Hjónin í Grænagarði á Garðaholti Sigurður Þorkelsson og Kristín Gestsdóttir voru heiðruð fyrir ræktunarstörf á Garðaholti 1997 á aðalfundi Skógræktarfélagsins.
Skógræktarfélag Garðabæjar hlaut árið 1994 Landgræðsluverðlaun sem Landgræðsla ríkisins veitir árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum.
Skógræktarfélag Garðabæjar var gestgjafi aðalfundar Skógræktarfélags Íslands 2013 sem var haldinn í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli. Um annað hundrað fulltrúar alls staðar af landinu sóttu fundinn sem tókst vel. Á fundinum hlutu þrír fyrrum og núverandi stjórnarmenn Skógræktarfélags Garðabæjar viðurkenningu fyrir áratuga starf í þágu skógræktar; Erla Bil Bjarnardóttir formaður félagsins frá stofnun, Barbara Stanzeit gjaldkeri og Sigurður Björnsson fyrrverandi ritari félagsins.
Sameining skógræktarfélaga Álftaness og Garðabæjar
Eftir sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness 2013, var Skógræktarfélagi Álftaness boðið til samstarfs, því starfsemi þess hafði leigið niðri eftir að félagið missti svæði undir þjóðlendur í Almenningsskógum. Skógræktarfélag Álftaness var formlega lagt niður 26.11.2015 og sameinað Skógræktarfélagi Garðabæjar.
Heimasíða
Heimasíða Skógræktarfélags Garðabæjar var opnuð formlega á aðalfundi félagsins í mars 2010 sem var gerð af Magnúsi Guðlaugssyni. Á aðalfundi félagsins 2019 verður ný og endurgerð vefsíða opnuð www.skoggb.is
Fyrir gerð vefsíðunnar voru gefin út fréttabréf a árunum 1990-1995 til félagsfólks.
Stjórn skógræktarfélagsins
Stjórn félagsins skipar 7 menn. Aðalfundur kýs formann félagsins og 6 meðstjórnendur og 4 menn í varastjórn að auki. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Aðalfundur kýs jafnframt einn skoðunarmann og einn til vara. Varastjórn hefur frá upphafi verið virki í stjórn félagsins og er boðuð á alla stjórnarfundi sem haldnir eru reglulega um 6-8 á ári, auk fjölda samskipta í tölvupósti.
Erla Bil Bjarnardóttir hefur verið formaður félagsins frá stofnun 1988 eða í yfir 30 ár og hyggst hún hætta formennsku á aðalfundi félagsins 2019. Erla Bil hefur unnið ómetanlegt starf fyrir félagið frá upphafi.