Tuttugu skógræktarfélagar tóku þátt í árlegri haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar um Suðvesturland laugardaginn 14. september í frekar rysjóttu veðri. Skoðaðir voru skógar bæði á Mógilsá í Kollafirði þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, tók á móti hópnum og Álfholtsskógur í Hvalfirði en þar tók Reynir Þorsteinsson, formaður Skógræktarfélags Skilmannahrepps, á móti okkur. Báðir þessir skógar eru ákaflega fallegir og fjölbreyttir sem gaman er að heimsækja og njóta, svo ekki sé talað um að geta verið í logni þegar vindurinn blæs allt í kring.
Haustferðin var afskaplega ánægjuleg, fróðleg og nærandi þrátt fyrir að haustlægð væri með í för.