Gönguleiðakort um skógræktarsvæðin í Garðabæ
Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.
Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er. Stígagerðin hófst sumarið 2009 þegar félagið tók þátt í samstarfi um atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og Garðabæjar um verkefni á skógræktarsvæðunum og margir ungir Garðbæingar tóku þátt í.
Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð. Sagt er frá skógræktarsvæðum í umsjón Skógræktarfélags Garðabæjar og öðrum áhugaverðum skógarreitum og svæðum í bæjarlandinu. Einnig er sagt frá upphafi skógræktar í Garðabæ sem má rekja til skógardaga á Vífilsstöðum vorið 1911
Gönguleiðakortið var unnið af Árna Tryggvasyni skiltahönnuði og ljósmyndara í samráði við stjórn félagsins. Útgáfa kortsins er styrkt af Bæjarsjóði Garðabæjar. Hægt er að nálgast kortið í þjónustuveri Garðabæjar að Garðatorgi 7 og fljótlega verða settir upp kassar við inngang að skógræktarsvæðunum í Sandahlíð og Smalaholti. Skógræktarfélag Garðabæjar er opið öllum áhugasömum um trjá- og skógrækt (www.skoggb.is).