Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar 2014
Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 13. september um Árnessýslu. Ferðin hófst að Foss í Grímsnesi þar sem skoðuð var ræktun Gunnlaugs og Guðrúnar Claessen til áratuga í landi sem er víða erfitt til ræktunar en með natni og elju tókst þeim að koma upp fjölbreyttum og skemmtilegum gróðri í fallegu umhverfi. Þaðan lá leiðin í Friðheima í Reykholti þar sem hópurinn fékk fræðslu m.a. um lífræna ræktun á tómötum og gúrkum þar sem innfluttar flugur eru notaðar til að halda vondu pöddunum í skefjum í stað eiturnotkunar og aðrar til að frjóvga plönturnar. Að því loknu snæddi hópurinn gómsæta tómatsúpu með nýbökuðu brauði í fallegu umhverfi í nábýli við tómatplönturnar. Eftir hádegi lá leiðin til Þóris Sigursteinssonar og Birnu konu hans til að skoða ræktun þeirra í landi Böðmóðsstaða í Laugardalnum. Þar fengum við leiðsögn Þóris um landið þar sem ræktaðar hafa verið um 150 trjátegundir og runnar. Að lokum heimsóttum við Jón Böðvarsson og Arndísi Árnadóttur í Órunes í landi Suðurkots við bakka Hvítár. Þar hafa þau ræktað í yfir tuttugu ár fjölbreytilegan trjágróður í fallegu umhverfi sem hefur vaxið ótrúlega vel, þrátt fyrir erfið skilyrði í upphafi.
Með hverri hausferð bætist okkur skógræktarfólki fróðleikur um ræktun við misjafnar aðstæður en að þessu sinni mættu 30 félagar úr Skógræktarfélaginu í haustferðina og var hún ákafleg ánægjuleg og fróðleg sem endra nær.
Á þessari slóð má sjá fleiri myndir úr ferðinni.