Haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar 2015
Árleg haustferð Skógræktarfélags Garðabæjar var að þessu sinni farin laugardaginn 4. september um Kjósina. Ferðin hófst í ræktun Sigþóru Oddsdóttur sem ættuð er frá Sandi, þar sem skoðuð var ræktun hennar og fjölskyldu til tuga ára á sandeyrum við Sandá. Svæðið er erfitt til ræktunar en þegar mokuð er hola fyrir plöntur þarf helst að nota haka og skóflu því upp kemur sandur og möl og síðan þarf að bæta mold í holuna. Þrátt fyrir það er þarna ótrúlega fljöbreytt og gróskumikil ræktun. Þaðan lá leiðin í Gildruholt sem er í landi Möðruvalla I þar sem Kristrún Sigurðardóttir og Símon Ólafsson ásamt fjölskyldu hafa ræktað og mótað um 3 hektara af landi síðan 1972. Í Gildruholti er landslag fjölbreytt þar sem skiptast á klettar, mýri og móar og Gildruholtslækur liðast um landið með fjórum mismundi brúm. Gróður er mjög fjölbreyttur með bæði nýjum og gömlum trjám samtals um 170 tegundir. Um landið hlykkjast um 2 km af stígum og vegum sem flestir eru slegnir grasstígar en einnig malar- og steinlagðir stígar. Hópurinn snæddi hádegisnesti í Gildruholti og að lokinni göngu um landið var boðið upp á tertu og kaffi áður en haldið var á næsta áfangastað.
Endað var á Stekkjarflöt, ræktun Ólafs Oddssonar og Eyglóar Rúnarsdóttir konu hans en skógurinn er kallaður Ólaskógur. Þar hófst ræktun um 1980 en landið er úr jörðinni Neðrahálsi þar sem Ólafur ólst upp. Ólaskógur er mjög fallegur og fjölbreyttur þar sem tekist hefur rækta skóg sem lítur út eins og náttúrulegur skógur. Ólafur tekur oft á móti hópum í skóginn þar sem hann fræðir fólk og kennir því að upplifa skóginn á mismunandi vegu með því að hlusta á skóginn, skynja lykt og viðkomu hans.
Þrátt fyrir smá úrkomu í logni nutu um 30 félagar úr Skógræktarfélaginu ánægjulegrar og fróðlegrar ferðar sem endra nær.
Skógræktarfélagar við ræktun Sigþóru Oddsdóttur frá Sandi.
Sigþóra Oddsdóttir tekur við plöntum úr hendi Barböru Stanzeit, gjaldkera Skógræktarfélags Garðabæjar.
Steinbrú í Gildruholti.
Kristrún Sigurðardóttir og Símon Ólafsson, gestgjafar í Gildruholti, taka við þakklætisvotti frá ferðafélögum.
Ólafur Oddsson sýnir hópnum ræktunina í Ólaskógi.