Skip to main content

Jólaskógur 2013

Með desember 18, 2013janúar 21st, 2019Fréttir

Jólaskógur 2013

 

Skógræktarfélag Garðabæjar efndi til opins jólaskógar í Smalaholti laugardaginn 14. desember. Mikil stemning og gleði barna var í skóginum þar sem kyngdi niður jólasnjó. Krakkarnir lögðu mikið á sig við að saga tréð sem fjölskyldan valdi auðvitað með samþykki þeirra. Þetta var góð fjölskyldustund í skóginum með mömmu og pabba, jafnvel afa og ömmu.

 

Svo að loknu erfiðinu að þramma í snjónum um skóginn, finna rétta tréð í stofuna heima, fella það og draga síðan út úr skóginum uppá bílaplan. Þá var gott að fá sér kakó í furulundinum, þar sem fullorðna fólkið gat spjallað saman, en þau leikið sér áfram í snjónum. Það virtist sem fjölskyldur hefðu mælt sér mót í Smalaholti og kölluðu á milli sín „eruð þið búin að finna tréð“.

 

Opinn jólaskógur á vegum Skógræktarfélags Garðabæjar er aðeins einn laugardag fyrir jól, en þar gefst íbúum bæjarins kostur á að koma í skóginn í Smalaholti og upplifa sanna jólastemningu með því að kaupa jólatré sem vaxið hefur í heimabyggð. Þetta er fjórða árið sem skógurinn er opnaður fyrir jólatréssölu, enda komin tími á að grisja skóginn sem hefur vaxið þarna upp frá árinu 1989 þegar gróðursetningar hófust í Smalaholti.

Skógræktarfélagar fagna því að geta gefið fjölskyldum í bænum þetta tækifæri innan bæjarmarkanna.

 

Með jólakveðju stjórn skógræktarfélagsins