Skógarganga Skógræktarfélagsins
Siðastliðið þriðjudagskvöld 12. júlí stóð Skógræktarfélagið fyrir göngu með leiðsögn Arndísar Árnadóttur list- og sagnfræðings með gróður- og byggingasögulegu ívafi um Vífilsstaði og nágrenni. Inn í þetta fléttaði svo Erla Bil garðyrkjustjóri af alkunnum skörungsskap ýmsum fróðleik um gróður, fólk og kartöflurækt á Vífilsstöðum. Gengið var um trjálundina á staðnum, gróðurinn skoðaður með vísun í upphaf trjáræktar á reitnum norðan við Vífilsstaðahælið fyrir nær hundrað árum. Ennfremur var vitjað um stæði gamla bæjarins á Vífilsstöðum niður við lækinn og spáð í gildi fornminja. Síðan var gengið um stóru trjásveigana á túninu sunnan við hælið sem gróðursettir voru fyrir hartnær fimmtíu árum. Þeir veittu sannarlega skjól fyrir sunnanvindinum þetta ánægjulega kvöld í stórum hópi gróðurvina og áhugafólks um verndun Vífilsstaða sem höfuðbóls í Garðabæ. Þrátt fyrir nýslegin túnin mátti skynja hin yfirgefnu hús eitt af öðru. Þessi stórkostlegi staður er vannýtt auðlind Garðabæjar sem ekki má gleymast frekar en handritin og annar menningararfur.