Skip to main content

Landgræðsluskógar

samstarfsverkefni skógræktarfélaga um land allt

Landgræðsluskógar eru umfangsmesta skógræktar- og uppgræðsluverkefni skógræktarfélaganna í landinu og er unnið í samstarfi við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Í nafni verkefnisins hafa skógræktarfélögin gróðursett hundruð þúsunda trjáplantna á hverju ári frá árinu 1990 og lætur nærri að gróðursett hafi verið í 400-500 hektara lands árlega.

Landgræðsluskógaátakið var kynnt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 1989, þeim fyrsta sem fulltrúar Skógræktarfélags Garðabæjar sátu. Landgræðsluskógar, eins og nafnið bendir til, er skógrækt á rýru landi, sem hentaði mjög vel á rýrum holtum ofan byggðar í Garðabæ. Þá var skógræktarfélagið komið með sitt fyrsta umsjónarsvæði,  Smalaholt, sem passaði í þetta líkan. Ekki síst áttu svæðin að vera opinn öllum almenningi sem var nýjung, en áður voru skógarreitir víggirtir vegna ágangs beitar.

 

Fyrsta plantan gróðursett í Smalaholtið

Þó Skógræktarfélag Garðabæjar hafi verið tiltölulega nýfætt, með eitt starfsár að baki, þá voru Garðbæingar fyrstir tilbúnir að hefja landsátakið.

Þann 10. maí 1990 kom saman fjölmenni í Smalaholti, er frú Vigdís Finnbogadóttir, þá forseti, gróðursetti fyrstu plöntuna í Landgræðsluskógum. Þar mættu Ingimundur Sigurpálsson, þá bæjarstjóri, fulltrúar bæjarstjórnar og þingmenn ásamt öðru fólki. Þetta var bjartur og fallegur dagur og hélst góða veðrið fram eftir sumri er skógræktarfélagið tók móti bæjarbúum á öllum aldri til gróðursetninga. Skólarnir fjölmenntu sem og frjáls félagasamtök, svo hið unga félag í bænum mátti vera stolt.

Frú Vigdís Finnbogadóttir gróðursetti fyrstu plönturnar í Smalaholti 10. maí 1990.

Skógrækt í atvinnuleysi

Um 1990 og nokkur ár á eftir var atvinnuleysi og mikil þörf fyrir að skapa sumarstörf fyrir ungt fólk í bænum. Þar kom skógræktarfélagið sterkt inn sem umsjónaraðili fleiri landgræðsluskógasvæða í Garðabæ, með því að útvega svæði og undirbúa svokallaða landgræðsluskógasamninga sem eru þrí-/fjórhliða samningar, þ.e. Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar,  skógræktarfélagsins og, ef um eignarland utan eigu bæjarins er að ræða, fulltrúa landeigenda.

Grenireitur í Smalaholti, fyrsta landgræðsluskógasvæðinu.

Árið 2003 var komið að 15 milljónustu landgræðsluskógaplöntunni á landsvísu. Þá komu saman í Smalaholti stjórn Landgræðsluskóga og skógræktarfélagar, ásamt Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra er gróðursetti ilmreyni af þessu tilefni og  var tímamótanna minnst í Smalaholti þar sem fyrstu plöntur í þessu viðamikla verkefni voru gróðursettar. Tíu árum síðar mætti frú Vigdís aftur í Smalaholtið og gróðursetti 20 milljónustu trjáplöntuna í átakinu og var gróðursetningin liður í dagskrá aðalfundar Skógræktarfélags Íslands sem þá fór fram í bænum. Að þessu sinni var askur gróðursettur og var honum valinn staður neðan við Furulundinn.

Samningar um Landgræðsluskóga í lögsögu Garðabæjar eru um Smalaholt, Sandahlíð, Tjarnholt, Hádegisholt og Leirdal.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um landgræðsluskógaverkefnið.